Ágætur fundur formanna

Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis.
Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, segir að fundur formanna allra flokka, þar sem rætt var um framhald umræðna um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, hafi verið ágætur þó að ekki hafi náðst samkomulag um framhald umræðunnar. Engin ákvörðun hafi verið tekin um frekari fundarhöld.

„Við erum núna nokkurn veginn stödd í lok dagsins í sömu sporum og þegar dagurinn hófst,“ segir Einar, en framhald fyrri umræðu um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka hófst ekki fyrr en um sjöleytið. Þingfundur mun að öllum líkindum standa til um kl. 20.

„Það var hins vegar ágætur fundur sem fór fram hér síðdegis með formönnum allra flokka, og þar með talið fjármálaráðherra og forsætisráðherra. Það voru fínar umræður, en menn náðu ekki saman,“ segir Einar og bætir við að enn sé töluvert langt á milli manna og áherslur þeirra um fyrirkomulag umræðunnar ólíkar. 

Spurður um framhald umræðunnar segist Einar vona svo sannarlega að hún verði hér eftir á efnislegum nótum, en hann veit ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. „Það er mín von að þessi umræða, svo mikilvæg sem hún er, geti haldið áfram á efnislegum nótum,“ segir Einar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert