Veður er tekið að versna á Suðurlandi en spáin er afar slæm síðdegis. Veðrið verður verst á Suður- og Vesturlandi síðdegis en skánar ekki á Norðvesturlandi fyrr en í fyrramálið. Samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi veðurfræðingi á Veðurstofunni ætti fólk að hugsa sig tvisvar um hyggi það á ferðalög.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins biður foreldra á höfuðborgarsvæðinu að huga að því hvort sækja þurfi börn í leikskóla, skóla eða frístundaheimili þegar stundaskrá lýkur. Mikill vatnselgur gæti myndast á götum borgarinnar og við íbúðarhús og fólk er því líka beðið að moka vel frá niðurföllum og hreinsa frá þeim.
Að sögn Þorsteins Jónssonar veðurfræðings eru nú um tuttugu metrar á sekúndu á Suðurlandi og á enn eftir að bæta í vindhraðann. Hann segir að veðrið nái hámarki á milli 15 og 17 á Suður- og Vesturlandi en stormur og hvassviðri verði norðvestantil á landinu, það er Breiðafirði, Vestfjörðum og á Norðvesturlandi. Þar gengur veðurofsinn ekki niður fyrr en um átta- eða níuleytið í fyrramálið. Aftur á móti gengur veðrið niður á Suðvesturlandi síðdegis.
Hávaðarok og rigning
Hann segir að mikil rigning fylgi með rokinu og því hætta á mikilli hálku á þjóðvegum landsins Rokið verður einna mest á Snæfellsnesi og eins verður veðrið slæmt á þekktum hvassviðrisstöðum eins og undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi. Á Snæfellsnesi má búast við því að það fari yfir 40 metra á sekúndu í hviðum nú síðdegis.
Þorsteinn beinir því til fólks að vera ekki að fara mikið um þjóðvegi landsins, einkum á Suður- og Vesturlandi, fyrr en á morgun. Eins verður ekkert ferðaveður á Norðvesturlandi fyrr en líður á morguninn á morgun.
Hálka er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en annars er víða hálka eða hálkublettir á Suðurlandi. Þæfingur er í Kjósarskarði en ófært eins og er um Krísuvíkurveg við Kleifarvatn.
Það er hálka eða snjóþekja víða á Vesturlandi og skafrenningur á flestum fjallvegum. Ófært er á Fróðárheiði og beðið með mokstur. Þæfingsfærð er á Bröttubrekku en verið að hreinsa.
Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á flestum vegum og éljagangur víða á sunnanverðum fjörðunum. Snjóþekja og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum.
Hálka eða hálkublettir eru víðast hvar á Norðurlandi. Vegurinn um Hólasand er ófær og þungfært er í Bárðardal.
Ófært er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði og verður ekki mokað í dag.
Víða er hálka eða hálkublettir á Austurlandi en greiðfært er frá Reyðarfirði að Kvískerjum en hálka, snjóþekja og hálkublettir áfram með suðurströndinni.