Karlmaður sem kom hingað til lands 23. febrúar án vegabréfs, farseðils, fjár til að fjármagna dvölina á Íslandi og allra skilríkja hefur verið úrskurðaður í farbann til 3. apríl næstkomandi. Maðurinn er grunaður um að afla sér fjár með lögbrotum.
Maðurinn var handtekinn á dvalarstað sínum í Reykjavík að morgni 5. mars síðastliðins. Hann er grunaður um líkamsárás og þjófnaði á töskum gesta á veitingastöðum í miðborg Reykjavíkur.
Líkamsárásin átti sér stað að kvöldi 4. mars í Reykjavík. Kona var þá á gangi heim til sín þegar maðurinn gaf sig á tal við hana. Að lokum stakk maðurinn upp á því að konan kæmi með sér heim en þegar hún hafnaði því réðst maðurinn á hana með höggum og spörkum, kýldi hana í andlitið og sparkaði í hana liggjandi.
Vitni voru að árásinni og hafa verið teknar skýrslur af konunni og vitninu. Lýsing þeirra á árásarmanninum passar við lýsingu á manninum. Þá átti árásin sér stað mjög nærri dvalarstað hans. Maðurinn hefur hins vegar neitað sök hvað þetta mál varðar.
Hann hefur hins vegar játað að hafa stolið bakpoka og veski á veitingastöðum í miðborginni.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fór fram á gæsluvarðhald yfir manninum en héraðsdómur hafnaði því þar sem gögn styðji ekki að hann sé undir rökstuddum grun um að hafa framið umrædda líkamsárás.
Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar en þar sem kæran fullnægði ekki skilyrði laga um meðferð sakamála var málinu vísað frá Hæstarétti.