Hælisleitandi úrskurðaður í farbann

Reykjavík - miðborg
Reykjavík - miðborg Sigurður Bogi Sævarsson

Karl­maður sem kom hingað til lands 23. fe­brú­ar án vega­bréfs, far­seðils, fjár til að fjár­magna dvöl­ina á Íslandi og allra skil­ríkja hef­ur verið úr­sk­urðaður í far­bann til 3. apríl næst­kom­andi. Maður­inn er grunaður um að afla sér fjár með lög­brot­um.

Maður­inn var hand­tek­inn á dval­arstað sín­um í Reykja­vík að morgni 5. mars síðastliðins. Hann er grunaður um lík­ams­árás og þjófnaði á tösk­um gesta á veit­inga­stöðum í miðborg Reykja­vík­ur.

Lík­ams­árás­in átti sér stað að kvöldi 4. mars í Reykja­vík. Kona var þá á gangi heim til sín þegar maður­inn gaf sig á tal við hana. Að lok­um stakk maður­inn upp á því að kon­an kæmi með sér heim en þegar hún hafnaði því réðst maður­inn á hana með högg­um og spörk­um, kýldi hana í and­litið og sparkaði í hana liggj­andi.
Vitni voru að árás­inni og hafa verið tekn­ar skýrsl­ur af kon­unni og vitn­inu. Lýs­ing þeirra á árás­ar­mann­in­um pass­ar við lýs­ingu á mann­in­um. Þá átti árás­in sér stað mjög nærri dval­arstað hans. Maður­inn hef­ur hins veg­ar neitað sök hvað þetta mál varðar.

Hann hef­ur hins veg­ar játað að hafa stolið bak­poka og veski á veit­inga­stöðum í miðborg­inni.

Lög­reglu­stjór­inn á höfuðborg­ar­svæðinu fór fram á gæslu­v­arðhald yfir mann­in­um en héraðsdóm­ur hafnaði því þar sem gögn styðji ekki að hann sé und­ir rök­studd­um grun um að hafa framið um­rædda lík­ams­árás.

Úrsk­urður­inn var kærður til Hæsta­rétt­ar en þar sem kær­an full­nægði ekki skil­yrði laga um meðferð saka­mála var mál­inu vísað frá Hæsta­rétti.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert