72% vilja þjóðaratkvæðagreiðslu

AFP

72% landsmanna vilja að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup. 21% svarenda er á móti því, og 7% eru hvorki með né á móti. 59% þeirra sem taka afstöðu myndu örugglega eða líklega kjósa að halda viðræðum áfram, ef slíkt yrði borið undir þjóðaratkvæði í dag. 41% myndi örugglega eða líklega greiða atkvæði með því að viðræðum yrði hætt. Sagt var frá könnuninni í hádegisfréttum RÚV.

Könnunin var gerð 27. febrúar til 5. mars, eftir að þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um að draga umsókn að ESB til baka var lögð fram á þingi. Netkönnunin var lögð fyrir 1400 manns og 61% svaraði. 

Í könnuninni var líka spurt um afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu. Ríflega 37% aðspurðra sögðust vera hlynnt aðild. Nærri 47% eru andvíg og 16% eru hvorki hlynnt né andvíg. 

Í frétt RÚV segir að sumarið 2010, þegar síðast var spurt um aðild í þjóðarpúsli Gallup, hafi 26% verið með aðild en 59% á móti. 

Frétt RÚV um könnunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert