Hjúkrunarfræðingar frá Hrafnistuheimilunum fjölmenntu á fund heilbrigðisráðherra í morgun til að afhenda honum kartöflur til að mótmæla misræmi á launum hjúkrunarfræðinga á öldrunarheimilum og þeirra á stofnunum sem hafa notið góðs af jafnlaunaátaki síðustu ríkisstjórnar, en munurinn er allt að 12%.
Arna Garðarsdóttir, deildarstjóri á Hrafnistu í Reykjavík, segir slök kjör fæla hjúkrunarfræðinga frá störfum á öldrunarheimilum sem komi niður þjónustunni sem þar er veitt.
Kristján Þór ræddi við hópinn og sagði að hann þekkti ekki allar forsendur á gjörð síðustu ríkisstjórnar og að það hefði ekki gefist vel en þó hefði verið ákveðið að standa við þau fyrirheit sem gefin höfðu verið. Hann sagði ekki í sínu valdi að hækka laun til stéttarinnar og að ekkert svigrúm væri til þess.
Þessi svör voru hjúkrunarfræðingar og stjórnendur heimilanna ekki sáttir við t.a.m hafi lengi verið ljóst að daggjöldin sem þar eru innheimt séu of lág til að standa undir launakostnaði.
Tilkynning frá Hrafnistu
Hjúkrunarfræðingar og stjórnendur á Hrafnistu mótmæltu á táknrænan hátt í morgun í velferðarráðuneytinu við Tryggvagötu áður en fundur fulltrúa í hópnum hófst með heilbrigðisráðherra um þann launamun sem skapast hefur milli hjúkrunarfræðinga eftir því á hvaða heilbrigðistofnunum þeir starfa. Ástæðan er að stjórnvöld hafa einskorðað jafnlaunaátakið sem hleypt var af stokkunum í upphafi árs 2013 eingöngu við heilbrigðisstofnanir sem heyra beint undir ríkið, en ekki öldrunarheimili og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstofnanir eins og venja hefur verið. Að mati hópsins virðist jafnlaunaátakið hafa snúist upp í andhverfu sína.