Kristjáni Þór afhentar kartöflur

Hjúkrunarfræðingar frá Hrafnistuheimilunum fjölmenntu á fund heilbrigðisráðherra í morgun til að afhenda honum kartöflur til að mótmæla misræmi á launum hjúkrunarfræðinga á öldrunarheimilum og þeirra á stofnunum sem hafa notið góðs af jafnlaunaátaki síðustu ríkisstjórnar, en munurinn er allt að 12%.

Arna Garðarsdóttir, deildarstjóri á Hrafnistu í Reykjavík, segir slök kjör fæla hjúkrunarfræðinga frá störfum á öldrunarheimilum sem komi niður þjónustunni sem þar er veitt. 

Kristján Þór ræddi við hópinn og sagði að hann þekkti ekki allar forsendur á gjörð síðustu ríkisstjórnar og að það hefði ekki gefist vel en þó hefði verið ákveðið að standa við þau fyrirheit sem gefin höfðu verið. Hann sagði ekki í sínu valdi að hækka laun til stéttarinnar og að ekkert svigrúm væri til þess.

Þessi svör voru hjúkrunarfræðingar og stjórnendur heimilanna ekki sáttir við t.a.m hafi lengi verið ljóst að daggjöldin sem þar eru innheimt séu of lág til að standa undir launakostnaði.

Tilkynning frá Hrafnistu

<em>Jafnlaunaátak stjórnvalda hefur snúist upp í andhverfu sína</em> <span> </span>

Hjúkrunarfræðingar og stjórnendur á Hrafnistu mótmæltu á táknrænan hátt í morgun í velferðarráðuneytinu við Tryggvagötu áður en fundur fulltrúa í hópnum hófst með heilbrigðisráðherra um þann launamun sem skapast hefur milli hjúkrunarfræðinga eftir því á hvaða heilbrigðistofnunum þeir starfa. Ástæðan er að stjórnvöld hafa einskorðað jafnlaunaátakið sem hleypt var af stokkunum í upphafi árs 2013 eingöngu við heilbrigðisstofnanir sem heyra beint undir ríkið, en ekki öldrunarheimili og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstofnanir eins og venja hefur verið. Að mati hópsins virðist jafnlaunaátakið hafa snúist upp í andhverfu sína.

<span> </span> <span>Í ráðuneytinu afhentu hjúkrunarfræðingarnir heilbrigðisráðherra ályktun með áskorun um að leiðrétta launamismuninn þegar í stað enda væri nú þegar farið að bera á uppsögnum og erfiðleikum við nýráðningar á hjúkrunarheimilum. Auk þess væru fyrirhugaðar kjarasamningaviðræður komnar í uppnám. Að lokum afhentu viðstaddir ráðherranum kartöflur sem táknrænan vitnisburð um óþekkt stjórnvalda enda hefðu þau ítrekað komið sér hjá að leiðrétta upphæð daggjalda til hjúkrunarheimilanna í samræmi við kostnaðarhækkanir.</span> <span> </span> <span>Launakostnaður vegna heilbrigðisstarfsmanna sem fá greitt samkvæmt kjarasamningum á öldrunarheimilum nemur nú milli 75 og 80% af heildarkostnaði við rekstur heimilanna. Öldrunarheimilin geta ekki hækkað laun starfsmanna sinna nema ríkisvaldið uppfæri greiðslur til heimilanna, en tekjur af rekstri þeirra ráðast nær eingöngu af upphæð daggjalda úr ríkissjóði og stjórnvöld ákveða einhliða. Jafnframt hefur tíðkast hingað til að ríkið greiði öldrunarstofnunum sambærilegar hækkanir á daggjöld fái starfsfólk heilbrigðiskerfisins annars staðar launahækkanir frá ríkinu.</span> <span> </span> <span>Ef fram heldur sem horfir munu hjúkrunarheimilin þurfa að takast á við frekari uppsagnir hjúkrunarfræðinga og mæta erfiðleikum við ráðningar í þau störf sem losna. Af þeim sökum mun fljótlega þurfa að hætta að taka á móti nýju heimilisfólki og jafnvel loka ákveðnum einingum og jafnvel heilum deildum.</span> <span> </span> <span>Fjöldi aldraðra bíður eftir hjúkrunarrými. Bæði er um að ræða einstaklinga í heimahúsum og mikinn fjölda sem situr fastur á Landspítalanum, þar sem um 10% rýma eru teppt vegna þessa. Að mati fulltrúa Hrafnistu er afar mikilvægt að stjórnvöld geri gangskör að því að leysa þennan vanda með því að virkja jafnlaunaátakið á öldrunarheimilum og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstofnunum eða greiða heilbrigðisstarfsfólki á þessum stofnunum sambærilegar hækkanir og stjórnvöld hafa greitt á stofnunum ríkisins.</span>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert