Makrílsamkomulag staðfest

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fagnar því að samkomulag hafi náðst um skiptingu makrílkvótans til næstu fimm ára. Fram kemur á heimasíðu ESB að samkomulagið hafi verið undirritað af fulltrúum ESB, Færeyja og Noregs í dag í London.

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, segir samkomulagið marka tímamót sem sýni ljóst að ESB vilji stunda sjálfbærar fiskveiðar. Hún segir að samningaviðræðurnar hafi staðið lengi yfir og að þær hafi tekið á. Mikið hafi verið í húfi. Samkomulagið sé í samræmi við áherslu sambandsins á sjálfbærar veiðar. Það tryggi sjálfbærni makrílstofnsins til lengri tíma.

Þá segir hún að íslenskum stjórnvöldum standi enn til boða að gerast aðili að samkomulaginu í náinni framtíð. 

Þá segir að ríkin sem aðild eiga að samkomulaginu hafi sérstaklega lagt til hliðar aflahlutdeild fyrir möguleg ný aðildarríki að því.

Samkomulagið gildir til ársins 2018. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka