Ávallt áverkar eftir veru með föður

Faðir barnsins huldi andlit sitt. Hér sést hann ásamt túlki …
Faðir barnsins huldi andlit sitt. Hér sést hann ásamt túlki sínum. mbl.is

Fimm mánaða stúlkubarn sem talin er hafa látist eftir að faðir hennar hristi hana harkalega 17. mars 2013 hlaut samkvæmt því sem kom fram hjá ríkissaksóknara áverka í svo gott sem hvert skipti sem hann var einn með barnið. Faðirinn neitar staðfastlega sök og segist ekki geta ímyndað sér hver myndi vilja skaða barnið.

Eins og fram hefur komið á mbl.is hófst aðalmeðferð yfir karlmanni á þrítugsaldri sem grunaður er um að hafa orðið fimm mánaða dóttur sinni að bana þegar hann hristi hana harkalega. Við það hafi hún hlotið blæðingu í heila sem að lokum leiddi til dauða hennar.

Faðirinn gaf skýrslu fyrir hádegið en hann neitar sök. Óumdeilt er hins vegar í málinu að hann var einn með barnið frá því móðir þess fór í vinnu um rétt fyrir klukkan sex síðdegis 17. mars 2013. Hann leitaði svo til nágranna sinna eftir aðstoð tæpri klukkustund síðar, en þá hafði barnið misst meðvitund. Það lést svo á sjúkrahúsi eftir aðgerð á höfði.

Hann lýsti atvikum á þessum tíma á þennan hátt: „Fimm til tíu mínútum síðar [eftir að móðirin fór til vinnu] vaknaði [stúlkan] hægt og rólega. Ég hélt kyrru fyrir til að sjá hvort hún myndi ekki sofna aftur. Þegar hún vaknaði byrjaði hún að gráta og ég fór til hennar til að reyna að hugga hana og róa. Ég tók hana í fangið en fékk á sama tíma símtal frá [móðurinni]. Hún heyrði í gegnum símann að [stúlkan] var grátandi og ég sagðist ætla með barnið í göngutúr.

Áður en ég fór af stað þá reyndi ég að róa hana og hugga, gaf henni pela og bita af banana til að sjúga. En hún hafði ekki áhuga á því þannig að ég í framhaldinu klæddi hana í útiföt og fór sjálfur í yfirhöfn og út með hana í tíu til fimmtán mínútna gönguferð.

Hún hélt áfram að gráta þannig að ég sneri aftur heim og hélt áfram að reyna hugga hana. Ég tók hins vegar eftir því að gráturinn var ekki eins hávær og áður og hún hreyfingalítil. Ég er ekki viss um það hversu lengi hún var hreyfingalítil þar sem hún lá á öxl minni.

Þá tók ég eftir því að hljóðin frá henni voru óvenjuleg, þannig að ég reyndi að ná athygli hennar en hún brást ekki við áreiti. Þegar það gerðist fór ég yfir til nágrannans og bað hann að kalla eftir aðstoð.“

Sá enga áverka á barninu

Þar með var frjálsri frásögn föðurins lokið og við tóku spurningar ríkissaksóknara. Meðal annars var maðurinn spurður að því hvað hann var að gera þegar barnið vaknaði og sagðist hann hafa verið í tölvu sinni. „Truflaði grátur barnsins þig við það sem þú varst að gera í tölvunni?“ spurði ríkissaksóknari en hann neitaði því.

Þá spurði saksóknari manninn út í myndir sem fundust á myndavélakorti í eigu hans og móðurinnar. Þar fundust myndir sem teknar voru af stúlkunni skömmu áður en móðirin hélt til vinnu. Þar sást stúlkan hlæjandi og brosandi. Saksóknari spurði því hvort barnið hefði litið eðlilega út á myndunum og játti maðurinn því.

Spurður hvort hann hefði séð einhverja áverka á barninu þennan sama dag sagði maðurinn að stúlkan hefði verið í fötum þannig að hann varð ekki var við neitt slíkt. Þá hefði hann ekki skipt á henni. 

Með stóran marblett á innra læri

Kom þá að því að ríkissaksóknari rifjaði upp þau atvik sem maðurinn var einn með dóttur sinni áður, en að hans sögn hafði það gerst í fimm til sex skipti. Það var til dæmis á Þorláksmessu 2012 en þá hafði móðir stúlkunnar nýlokið við að baða hana og var sjálf í sturtu. Hún gerði því föðurnum að fara með barnið á neðri hæð íbúðarinnar og klæða það í föt.

Í því ferli hafði barnið hægðir og var maðurinn spurður að því hvað hann gerði þá: 

Faðirinn: „Ég fór með hana upp til að sturta hana.“

Saksóknari: „Manstu hvernig þú hélst á barninu?“

Faðirinn: „Andlit hennar sneri fram, annar handleggur minn var utan um hana og hinn undir henni.“

Saksóknari: „Manstu eftir að hafa tekið fast á henni?“

Faðirinn: „Nei.“

Spurður hvort hann muni eftir stórum marbletti á innra læri barnsins sem náði út á rasskinn og var skoðaður af lækni 28. desember 2012 sagðist faðirinn muna eftir honum. Hann sagðist hins vegar ekki vita hvernig marbletturinn kom til.

Gat ekki rétt út vinstri fæti

Næst var hann spurður út í það hvort hann muni eftir tilviki þar sem móðir barnsins hafði áhyggjur af því að stúlkan vildi ekki rétta úr vinstri fæti og hafi af þeim sökum hringt á lækni 11. febrúar 2013 og sagði maðurinn: „Mig rámar í þetta, að hún brást illa við þegar komið var við fótlegginn.“

Hann sagðist hins vegar aðspurður ekki muna hvort hann hefði verið einn með barnið daginn áður. Saksóknari upplýsti þá að það hefði verið annar vinnudagur móðurinnar og hún hefði farið til vinnu í þrjár klukkustundir yfir miðjan daginn.

Og að lokum var farið yfir það þegar móðirin fór að hitta vinkonur sínar á kaffihúsi að kvöldi 5. mars 2013. Maðurinn var spurður hvað hann teldi að barnið hefði grátið lengi það kvöld. „Tvo tíma eða tvo og hálfan,“ sagði hann og bætti við að hann hefði brugðist við með að reyna ná sambandi við móður barnsins en gat það ekki.

Því næst var farið yfir hvenær stúlkan fór að velta sér og það staðfest með myndbandsupptöku að það var 27. febrúar. Ríkissaksóknari spurði þá hvort hann vissi hvort barnið hefði velt sér eftir 5. mars. Sagðist maðurinn ekki muna dagsetningar og þegar hann var spurður hvort móðir barnsins kynni að muna þetta betur sagði hann svo geta verið.

„Get ekki bent á aðra“

Saksóknari: „Nú ert þú búinn að hlusta á lýsingar réttarmeinafræðingsins af áverkum sem urðu til 17. mars. Hvað heldur þú að hafi komið fyrir barnið?“

Faðirinn: „Ég er ekki læknismenntaður þannig að ég get ekki getið mér til um það. En það er greinilegt að barnið hlaut áverka, það varð greinilega fyrir blæðingu í heila.“

Saksóknari: „En nú er barnið með marbletti á baki, handleggjum og brjóstkassa og áverka á heila og augum sem bera þess merki að það hafi verið tekið föstum tökum og hrist. Gerðir þú það?“

Faðirinn: „Nei.“

Saksóknari: „Hver hefði getað gert það?“

Faðirinn: „Ég get ekki bent á aðra, þar sem ég var ekki viðstaddur.“

Saksóknari: „En gerir þú þér grein fyrir þessum lýsingum, að barnið var tekið föstum tökum og hrist harkalega?“

Faðirinn: „Já.“

„Ég var harmi sleginn“

Verjandi mannsins fékk því næst tækifæri til að spyrja skjólstæðing sinn. Hann spurði meðal annars hvenær hann vaknaði 17. mars, hversu lengi móðir barnsins var með það á neðri hæðinni á meðan hann sjálfur var á efri hæðinni og út í andlega hagi móðurinnar. 

Maðurinn sagðist hafa vaknað um hádegi en komið hafði fram að barnið var baðað um morguninn, þótt áhöld séu um hvort maðurinn hafi tekið þátt í því. Hann sagðist ekki vita hversu lengi móðirin var með barn sitt á neðri hæðinni eða hvað fór fram þar.

Þá spurði verjandi mannsins: Þú nefndir að [móðirin] hefði hringt skömmu eftir að hún fór í vinnuna. Var það venjulegt að hún hringdi svona fljótt eftir að hún fór úr húsi?“ Maðurinn sagði að það hefði ekki verið venjulegt.

Verjandinn fékk það einnig upp úr skjólstæðingi sínum að móðirin hefði verið þunglynd og skapbráð og hefði fengið reiðiköst sem beindust að honum. Þá hefði hún viðrað þær hvatir sínar að vilja hrista barnið þegar það gréti. Sjálfur sagðist hann engin andleg vandamál hafa glímt við um ævina.

Verjandi: „Hver voru viðbrögð þín þegar þú fréttir að [stúlkan] hefði látist?“

Faðirinn: „Þetta var ruglingslegur tími því ég fékk upplýsingarnar á íslensku og skildi ekki almennilega hvað hafði gerst.“

Verjandi: „Varstu sorgmæddur?“

Faðirinn: „Ég var harmi sleginn.“

Þinghaldið lokað að hluta

Skýrslutökum er því lokið af réttarmeinafræðingnum sem skrifaði skýrslu um málið og föðurnum sem er ákærður. Nokkur töf hefur orðið á skýrslutökunum en það tók þannig tvær klukkustundir að spyrja réttarmeinafræðinginn og rúmlega einn og hálfan tíma að spyrja föðurinn. Stefnt var að því að aðalmeðferðin stæði til klukkan 17 í dag og til klukkan 16 á morgun en óvíst er hvort tímasetningar haldist.

Eftir hádegið er komið að skýrslutöku yfir móður stúlkunnar en dómari hefur samþykkt beiðni hennar um að dómþing verði lokað meðan á þeirri skýrslutöku stendur. Annars virðist mikill áhugi á málinu því setið er í svo gott sem öllum sætum dómsalar 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka