Ber öll merki ungbarnahristings

AFP

Áverkar sem fundust á fimm mánaða gömlu stúlkubarni sem lést eftir að hafa verið í umsjón föður síns passa allir við þá verknaðarlýsingu að barnið hafi verið hrist. Þetta sagði réttarmeinafræðingur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þegar aðalmeðferð í „Shaken baby-málinu“ hófst. 

Réttarmeinafræðingurinn lýsti því meðal annars að marblettir hefðu fundist víð á barninu, á stöðum sem benda til að um gripför sé að ræða. Áberandi var marið á baki og brjóstkassa sem benti til að þar hafi sérstaklega verið gripið fast. Þá fannst mar við eyrum sem bendir til að barnið hafi verið slegið.

Þá kom fram að taugasérfræðingar hefðu greint áverka á mænu sem væri mjög skýrt dæmi um áverka af hristingi. Það væri áverki sem hreinlega væri krafist í „shaken baby-málum“. „Hægt er að færa rök fyrir því að einstakir áverkar gætu átt sér aðrar skýringar en áverkarnir í heild eru dæmigerðir fyrir ungbarnahristing.“

Réttarmeinafræðingurinn var spurður hvort áverkarnir gætu hafa komið til við leik eða gáleysi og sagði hann það útilokað. „Hér er um að ræða svo massífa áverka að það er ekki neinn möguleiki á því að hann geti orðið til af gáleysi í leik eða við minniháttar pústra eða slys í dagsins önn.“

Faðir barnsins, karlmaður á þrítugsaldri, er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás með því að hrista dóttur sína svo harkalega að hún hlaut blæðingu í heila sem leiddi til dauða hennar.

Aðalmeðferð heldur áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert