Fimm mánaða stúlka sem talin er að hafa látist eftir að faðir hennar hristi hana harkalega 17. mars 2013 hefði orðið rænulaus á nokkrum mínútum eftir áverkann, að sögn sérfræðings í heila- og taugaskurðlæknum. Hann sagði mikla krafta hafa búið að baki til að valda slíkum skemmdum sem urðu.
Eins og komið hefur fram fer fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn karlmanni á þrítugsaldri sem ákærður er fyrir að hafa valdið dauða fimm mánaða dóttur sinnar með því að hrista hana harkalega. Stúlkan hafi fengið heilablæðingu sem dregið hafi hana til dauða.
Sérfræðingur í heila- og taugaskurðlækningum kom fyrir dóminn en hann framkvæmdi skurðaðgerð á stúlkunni eftir að komið var með hana á Landspítalann. „Miðað við útlit blæðingarinnar og þess sem ég varð vitni að í aðgerðinni get ég ekki með nokkru móti séð annað en að líðan hennar hafi versnað mjög fljótt eftir það sem gerðist. Þá er ég að tala um mínútur.“ Hann sagði að barnið hefði orðið rænulaust á nokkrum mínútum, svo mikil var blæðingin.
Hann sagði að blæðingar hefðu verið á mörgum stöðum og „fleiri, fleiri millilítrar“ streymt um heilann á hverri mínútu. „Það er ekki lengi sem heilinn þolir svoleiðis magn.“