„Þurfti alltaf að sjá mömmu sína“

Maðurinn fyrir dómi í dag.
Maðurinn fyrir dómi í dag. mbl.is

Karlmaður sem er ákærður fyrir að hafa orðið fimm mánaða dóttur sinni að bana í mars 2013 var alltaf í tölvuleikjum og sinnti ekki heimilisstörfum. Dóttirin vildi ekki vera hjá honum og virkaði í raun hrædd við hann. Þetta sagði vinkona móður barnsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. 

Konan er búin að þekkja móðurina í átján ár og ræddu þær mikið um sambandið við föðurinn. „Það var svolítið erfitt. Hann gerði aldrei neitt og hún var oft reið út í hann. Það var ekki hægt að tala við hann og hann virtist í raun ekki hafa tilfinningar. Þetta var erfitt samband. Hann var alltaf í tölvuleikjum og gerði í raun ekki annað.“

Spurð hvort móðirin hafi haldið barninu frá honum sagði konan: „Svolítið, því [stúlkan] virtist bara vera hrædd við hann. Í eitt skipti fór hún að gráta við það eitt að sjá hann. [Móðirin] var búin að taka eftir þessari hegðun hjá henni.“

Þá lýsti konan því að stúlkan gat ekki verið hjá neinum öðrum en móður sinni. „Hún þurfti alltaf að sjá mömmu sína.“

Var greinilega mjög hræddur

Nágrannahjón fólksins 17. mars 2013 komu einnig fyrir dóm í dag og gáfu skýrslu, en faðirinn leitaði til þeirra þegar stúlkan sýndi engin viðbrögð. Lýsing konunnar er á þessa leið: „Dyrabjöllunni var hringt og við vorum heima, ég, maðurinn minn og börnin okkar tvö. Hann fór til dyra og kallaði fljótlega á mig. Í dyrunum var [faðirinn] með [stúlkuna] í fanginu. Hann spurði í sífellu hvað væri að henni. Ég gekk til stúlkunnar og lagði hönd á enni hennar til að athuga hvort hún væri veik, því hún var slappleg. Ég var hissa þegar ég setti höndina á enni hennar því hún var ekki heit og frekar þvöl.

Við ákváðum að hún þyrfti að fara upp á barnaspítala strax og að hann [eiginmaðurinn] færi með. [...] Hann spurði nokkrum sinnum hvað væri að henni. [...] Ég sá að hann var berfættur og þá áttaði ég mig á því að þetta væri kannski eitthvað alvarlegt. Hann var greinilega mjög hræddur ef hann var kominn berfættur yfir til okkar.“

Hún sagðist hafa rætt við móðurina fáeinum dögum áður og þá hefði móðirin tjáð sér að samband hennar og föðurins væri ekki gott. Það hefði komið henni á óvart því þær töluðu ekki mikið saman. Þá hafði hún sagt að faðirinn legði ekki mikið til á heimilinu og hún væri því svolítið ein. 

Eiginmaður konunnar lýsti því þegar þeir voru á leið upp á sjúkrahúsið: „Hann er að klæða hana í kuldagalla og þegar hann er að því held ég að hann hafi hringt í [móðurina] eða reynt það. Þá rétti hann mér barnið og þá fann ég hvað það var máttlaust og vissi um leið að eitthvað mikið var að.“

Aðalmeðferðin heldur áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert