Frávísun samþykkt í Aserta-málinu

Héraðsdómur Reykjaness féllst í dag á frávísunarkröfu vegna ákæru embættis sérstaks saksóknara á hendur fjórum karlmönnum fyrir meint brot gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál með því að hafa í sameiningu haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti fyrir 14,3 milljarða króna án heimildar Seðlabanka Íslands.

Meint brot mannanna gengu út á milligöngu um gjaldeyrisviðskipti með íslenskar krónur gegn erlendum gjaldeyri og fjármagnsflutninga á íslenskum krónum til Íslands tengda þeim viðskiptum. Starfsemin var rekin í nafni sænska félagsins Aserta AB sem hinir ákærðu réðu yfir. Samkvæmt heimildum mbl.is var ákærunni vísað frá á grundvelli þess að ekki væri nógu skýrt kveðið á um meinta refsiverða háttsemi.

„Við metum bara hvort við kærum úrskurðinn og höfum frest til þess fram á mánudag,“ segir Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknarfulltrúi hjá embætti Sérstaks saksóknara, í samtali við mbl.is spurður hvort úrskurðurinn verði kærður til Hæstaréttar.

„Málinu var vísað frá vegna þess hve ákæra er óskýr, hún lýsi einfaldlega ekki refsiverðri háttsemi og uppfylli því ekki skilyrði laga. Það er skilningur skjólstæðings míns,“ segir Grímur Sigurðsson, verjandi eins hinna ákærðu.

„Skjólstæðingur minn telur þetta einfaldlega staðfesta að það voru aldrei framin nein lögbrot í rekstri félagsins Aserta. Eftir hina viðamiklu rannsókn var ekki unnt að lýsa meintum brotum í ákæru - hvað þá sakfella - og fyrir vikið var málinu vísað frá. Það sem eftir stendur er auðvitað að þessi málsmeðferð er alveg einstök. Málið hefur hangið yfir skjólstæðingi mínum í fjögur og hálft ár, eignir hans voru kyrrsettar í tvígang á tímabilinu áður en ákæran var birt og lögregla hélt opinberan fréttamannafund í upphafi rannsóknar þar sem meint brot voru kynnt og þau talin sönnuð. Eftir þetta ferli allt saman er svo ekki hægt að lýsa þessari háttsemi þannig að það standist fyrir dómi, einfaldlega vegna þess að hún er ekki refsiverð.“

Spurður um framhald málsins segir Grímur að það verði skoðað meðal annars í ljósi þess hvort hægt verði að rétta hlut skjólstæðings hans, þó ekki nema varðandi kyrrsetninguna sem ákveðnar bótareglur gildi um. Þá eigi einnig eftir að koma í ljós hvort saksóknari kæri niðurstöðuna.

Frétt mbl.is: Gjaldeyrisviðskipti fyrir héraðsdómi

Frétt mbl.is: Ákærðir fyrir 14,3 milljarða millifærslur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert