Segir ekkert liggja fyrir um sekt

Frá réttarhaldinu.
Frá réttarhaldinu. mbl.is

Verjandi karlmanns sem ákærður er fyrir að hafa valdið dauða fimm mánaða gamalla dóttur sinnar sagði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að axla sönnunarbyrði í málinu. Ekkert liggi fyrir um það hver hafi hrist stúlkuna og komi tveir til greina, faðirinn og móðirin. Hann sagði að sökum þess beri dóminum að sýkna manninn af kröfum ákæruvaldsins. 

Verjandinn, Víðir Smári Petersen, sagði að tímalínan í málinu væri svo gott sem óumdeilanleg. Þann 17. mars 2013 hafi fólkið verið með barnið á heimili þeirra í Reykjavík. En þrátt fyrir að faðirinn hafi verið einn með barnið frá kl. 17.45 og í um klukkustund, eða þar til hann leitaði eftir aðstoð hjá nágrönnum þegar barnið missti meðvitund, þá hafi móðir barnsins verið ein með barnið í þrígang yfir daginn.

Hann sagði að mikilvægt væri að horfa til rannsókna á „shaken baby syndrome“ en í þeim kemur fram að nokkur tími geti liðið frá því að barn er hrist og þar til einkenni koma fram. Það geti verið allt að 72 klukkustunda seinkun. Því komi allt eins til greina að móðirin hafi hrist barnið umræddan dag.

Einnig byggði hann á að ekki sé útilokað að barnið hafi látist af öðrum orsökum en vegna hristings. „Samfélagið vill að sjálfsögðu koma í veg fyrir ofbeldi gegn börnum, en á móti er ekkert hræðilegra en að vera ranglega dæmdur fyrir að valda dauða barns síns,“ sagði Víðir Smári og bætti við að hann rannsókn hafi verið áfátt. Útiloka hafi átt alla aðra möguleika, sem séu tugir ef ekki hundruð. Þannig verði að skoða sjúkrasögu beggja foreldra og útiloka alla sjúkdóma sem geti valdið heilablæðingu. „Að mati ákærða stendur enn eftir spurningin: Hvaða sjúkdómara voru útilokaðir og með hvaða hætti?“

Hann sagði greinilegt á skýrslu réttarmeinafræðings að hann hafi verið búinn að komast að niðurstöðu áður en skýrslan var skrifuð. Því hafi ekki aðrar ástæður en „shaken baby syndrome“ verið kannaðar. „Það hefði þurft rækilegri og ítarlegri skoðun. Það er ekki sannað með óyggjandi hætti að hún hafi látist af völdum „shaken baby syndrome“ og algjörlega ósannað hvenær þessi hristingur átti sér stað. Þetta er grundvallaratriði því [móðirin] hefði getað valdið þessu. Ákærði var bara einn með henni í eina klukkustund en hún var ein með henni í nokkur skipti sama dag og í dágóðan tíma.“

Sökum þess hefði þurft læknisfræðilegt mat á því hvenær hristingurinn átti sér stað. „Málið er galopið. Engin gögn í málinu sýna að það hafi verið ákærði frekar en [móðirin] sem varð barninu að bana. Það að hann hafi verið síðastur með barnið er engan veginn nóg til að sanna það. Ekkert í málinu sýnir fram á að áverkarnir hafi orðið til eftir klukkan 17.45 17. mars 2013. [...] Það er ekki nægjanlegt að A sé líklegri en B til að hafa framið verknaðinn. Líkurnar í þessu máli eru ekki meiri en 50%“

Víðir Smári benti á að maðurinn sé ákærður að hafa með ásetningi valdið dauða kornungrar dóttur sinnar. „Það er einhver þyngsti kross að bera að vera dæmdur fyrir að vera valdur að dauða barns síns. [...] Og því þurfa dómstólar að vera alveg vissir í sinni sök.“

Hann sagði þetta ekki snúast um að sanna sekt móðurinnar heldur að benda á að ekki sé sannað að faðirinn hafi framið ódæðisverk sem þetta. Vísaði hann engu síður til þess að móðirin hefði verið greint með fæðingarþunglyndi tíu dögum áður en dóttir þeirra lést. Því hafi til dæmis verið nauðsynlegt að framkvæma geðlæknismat á henni. Það hafi ekki verið gert þrátt fyrir að rætt hafi verið um það undir rannsókn málsins. Þar hafi rannsókn lögreglu verið ábótavant.

Að lokum sagði Víðir Smári að ef svo ólíklega færi að maðurinn yrði sakfelldur í málinu þá sé óhugsandi að dæma hann fyrir ásetningsbrot. „Ef hann framdi verknaðinn þá var þetta stórfellt gáleysi. “

Ekkert annað kemur til greina

Áður hafði Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari farið fram á maðurinn verði sakfelldur og að hann verði dæmdur í ekki minna en átta ára fangelsi. Hún tók ekki fram sérstakan árafjölda en gerði því skóna að hugsanlega hefði átt að ákæra manninn fyrir manndráp þar sem sakfelldir menn hljóta jafnan 16 ára fangelsisdóma.

Hún lagði áherslu á að atburðarrásin eftir að barnið var hrist hafi verið mjög snögg. „Það er útilokað að barnið hafi sofnað, vaknað og grátið í einhvern tíma og svo misst meðvitund,“ sagði hún en óumdeilt er í málinu að móðir barnsins svæfði það um klukkan 17 umræddan dag en hélt svo til vinnu 45 mínútum síðar. Barnið vaknaði svo skömmu eftir klukkan 18. 

Í andsvörum sínum sagði hún svo að það væri algjör óþarfi að fara hengja sig í hugtök. Það sem skipti máli er vitnisburður sérfræðilæknis sem framkvæmdi aðgerð á barninu að kvöldi 17. mars. Hann hafi séð að bláæðar voru rofnar í höfði barnsins og bláæðatengingar voru einnig í sundur. „Þegar þær tengingar eru rofnar þá safnast blæðingin fyrir og æðarnar fara í sundur um leið og barnið er hrist.“ Það þurfi ekkert að kanna frekar hvort eitthvað annað hafi getað valdið dauða barnsins. „Þetta var svo alvarlegur áverki að það var aldrei hægt að bjarga barninu.“

Þá sé það mat læknisins að þegar barnið er hrist og fær þennan áverka þá líði ekki nema nokkrar mínútur þar til meðvitund barnsins skerðist. „Þrátt fyrir að það sé einhver ágreiningur um „shaken baby syndrome“ þá er engin ágreiningur um það að þegar lítið barn fær svona miklar heilablæðingar þá missir það meðvitund mjög snemma.“

Því sé ómögulegt að móðir barnsins hafi getað valdið dauða barnsins. Það að hún hafi hrist barnið kröftuglega, svæft það svo og haldið til vinnu. „Og barnið vaknar svo bara og grætur hástöfum í klukkutíma. Þetta er bara algjörlega útilokað.“

Gat ekki gengið frá aðstæðunum

Sigríður rakti einnig aðstæður mannsins. Hann er breskur karlmaður á þrítugsaldri sem hafði búið hér á landi í tæpt ár. Hann hafi verið algjörlega framtakslaus og líklega haldinn tölvufíkn. Hann hafi ekki aðstoðað með barnið eða með heimilisstörfin og var án atvinnu. Hann kunni einnig lítið til verka þegar kom að börnum. Og það var ekki þannig að barnið gréti hjá honum heldur fór það beinlínis að gráta þegar það sá hann. „Þetta verður að teljast mjög óvenjulegt.“

Þennan umrædda dag hafi maðurinn verið í tölvunni eins og endranær. Þegar konan fór í vinnuna færði hann sig til sofandi barnsins en tók tölvuna með sér. Þegar barnið vaknaði svo þurfti hann að slíta sig frá tölvunni. Barnið tekur að gráta og þetta eru aðstæður sem hann ræður ekki á nokkurn hátt við. „Það kom fram hjá geðlækninum að hann sé háður öðrum, forðist mjög átök og árekstra. En í þessum aðstæðum getur hann ekkert labbað burtu. Hann er einn í þessum aðstæðum og verður að gera eitthvað. Hann getur ekki látið barnið hætta að gráta. Það er byggt á því að hann hafi, því miður, beitt barnið þessu ofbeldi í þetta skipti, hrist barnið með þessum afleiðingum.“

Fyrir utan fyrrnefndar aðstæður þá nefndi Sigríður að hann var undir miklu álagi. Hann hlaut gagnrýni frá móður barnsins vegna þess að hann var framtakslaus og lagði ekki nóg í sambandið. Hann þurfti skrifleg fyrirmæli til að gera hversdagslega hluti, var ekki að tengjast barninu og var í raun látinn sofa á gólfinu því barnið svaf upp í rúmi hjá móður sinni. „Hann var orðið algjört aukaatriði á heimilinu. Sambandið var ástríkt áður en barnið kom til en þarna var hann orðinn aukaatriði. Og móðirin hugsaði sér að vilja vera ein með barnið og að hann fari af heimilinu.“

Hann sé því þarna undir miklu álagi en vilji standa sig. „Í örvæntingu sinni hefur hann gripið til þess ráðs að hrista barnið með þessum hörmulegu afleiðingum.“

Krefst 10 milljón króna í bætur

Réttargæslumaður konunnar, Guðrún Sesselja Arnardóttir, tók einnig til máls en hún fer fram á tíu milljónir króna í miskabætur. „Tjón brotaþola verður aldrei bætt með fjármunum, að sjálfsögðu, og hún ætlaði sér í fyrstu ekkert að setja fram bótakröfu enda kemur ekkert til með að bæta dóttur hennar. En miski hennar er meiri en ella vegna þess að hún hafði réttarstöðu sakbornings í átta mánuði og þurfti að vera í þeirri stöðu grunuð um að valda dauða dóttur sinnar. Það hefði sakborningur getað komið í veg fyrir með því að gangast við broti sínu. Þess í stað neitar hann sök og gefur í skyn að hún hafi valdið þessu.“

Þá tók Guðrún Sesselja fram að konan hafi átt verulega erfitt eftir atburðinn og verið í viðtölum hjá sálfræðingi. Hún hafi nýverið eignast annað barn og var í sérstakri áhættumæðravernd. Hún hafi haft miklar áhyggjur á meðgöngunni þurfti meiri aðstoð en gengur og gerist. 

Tveggja daga aðalmeðferð í málinu lauk eftir hádegið í dag og var málið því næst dómtekið. Má gera ráð fyrir því að dómur verði kveðinn upp innan fjögurra vikna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert