Var „orðinn bullandi afbrýðisamur“

Faðirinn ásamt verjanda sínum.
Faðirinn ásamt verjanda sínum. mbl.is

Móðuramma fimm mánaða stúlku sem lést af völdum heilablæðingar í mars 2013 sagði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að faðir stúlkunnar hefði verið „orðinn bullandi afbrýðisamur“ út í hana og hversu mikið móðir stúlkunnar sinnti henni. Maðurinn er ákærður fyrir að hafa valdið dauða barnsins.

Síðari dagur aðalmeðferðar yfir karlmanni á þrítugsaldri sem ákærður er fyrir að hafa hrist fimm mánaða dóttur sína svo harkalega að hún hlaut heilablæðingu hófst fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun á því að rætt var við tvíburasystur mannsins. Hún lýsti bróður sínum sem skapgóðum manni sem væri rólegur að eðlisfari. Hann væri ekki fyrir ágreining og hörfaði frá þegar ágreiningur kæmi upp.

Þá sagði hún að stúlkan hefði verið mikið hjá móður sinni en bróðir sinn hefði sinnt heimilisstörfunum meira þess í stað. Hann hefði engu að síður verið afar stoltur faðir og sent myndir af stúlkunni á hverjum degi.

Ennfremur sagði hún að þau hefðu verið hamingjusöm saman, sambandið hefði þó breyst eftir að stúlkan kom í heiminn og hefði móðirin meðal annars einu sinni haft á orði að hún vildi slíta sambandinu.

Vildi manninn út af heimilinu

Móðuramma barnsins kom einnig fyrir dóminn og gaf skýrslu. Hún lýsti föður barnsins á annan og verri hátt. Sagði hann aldrei heilsa og varla væri hægt að eiga samræður við hann. Þá hefði stúlkan ávallt farið að gráta þegar hann hélt á henni. „Þetta var mjög óeðlilegt. Ég var búin að minnast á þetta við [móðurina] því okkur fannst þetta ekki eðlilegt.“

Hún sagði sambandið hafa verið gott í byrjun en stuttu áður en barnið fæddist hefði dóttir hennar sagst vilja fá manninn út af heimilinu. Hann hefði hins vegar neitað. Stuttu fyrir nafnveislu stúlkunnar hefði hún svo hringt hágrátandi. „Þá hafði [faðirinn] ekki talað við hana í tvo daga, heldur spilaði bara tölvuleik.“

Móðuramman kom á heimilið daginn sem barnið lést og sagði að það hefði þá verið hjalandi og brosandi. Faðir þess hefði hins vegar ekki heilsað og verið yfirspenntur og taugaveiklaður. „Hann opnaði dyrnar en heilsaði ekki. Ég vil meina að þarna hafi [hann] verið orðinn bullandi afbrýðisamur út í [stúlkuna]. Af því að [móðirin] sinnti henni svo mikið.“

Aðalmeðferðin heldur áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert