Fengu tilboð á tíunda tímanum

Frá fundi framhaldsskólakennara og ríkisins í kvöld.
Frá fundi framhaldsskólakennara og ríkisins í kvöld. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Á tíunda tímanum í kvöld lá fyrir að verkfall Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum myndi hefjast á miðnætti. Undanfarna daga hefur verið fundað stíft, en mikið ber í milli. Ríkissáttasemjari lagði fram drög að samningum um hálftíuleytið og hyggjast kennarar fara yfir þau í kvöld og á morgun.

„Nú er það okkar verkefni að fara yfir þessi drög,“ sagði Aðalheiður Steingrímsdóttir formaður Félags framhaldsskólakennara í húsnæði ríkissáttasemjara í kvöld. „Við höldum viðræðum áfram, það er ekki búið að slíta þeim þó að svona hafi farið.“

Til stóð að samninganefndir myndu funda fram á nótt og munu síðan hittast á hádegi á morgun.

Boðið meira en 2,8% hækkun

Framhaldsskólakennarar hafa farið fram á 17% launahækkun, sem þeir segja að sé það sem munar á launum þeirra og sambærilegra stétta hjá ríkinu. Þar til í kvöld var þeim boðin 2,8% hækkun, sem er sú sama og almenni markaðurinn samdi um fyrir jól.

Spurð að því hvort samningsdrögin væru í takt við kröfur kennara sagðist Aðalheiður ekki geta tjáð sig um það. „Við eigum eftir að skoða þetta og getum ekki sagt neitt um innihaldið, við eigum eftir að taka afstöðu.“ Er verið að bjóða meira en 2,8% hækkun? „Já, ég held að það megi segja að þessi tala sé ekki lengur uppi á borðinu.“

Þetta er ekki óskastaðan

Og tíminn er dýrmætur þegar verkfall er annars vegar.

„Það skiptir miklu máli að nú verði tíminn notaður vel, nú eru félagsmenn okkar að fara í verkfall og hver dagur er dýr, bæði fyrir okkur og nemendurna. Við munum leggja allt kapp á að reyna að ýta málinu áfram,“ segir Aðalheiður.

En það hljóta að vera viss vonbrigði að svona hafi farið? „Já, það er mjög slæmt að missa þetta út í verkfall. Þetta er ekki óskastaðan,“ sagði Aðalheiður. Undir þetta tók Ólafur H. Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum. „Við höfum unnið baki brotnu að því að semja undanfarnar vikur. Því miður endaði þetta svona, en við vitum ekki hvað þetta verður langt.“

Breytt vinnufyrirkomulag inni í tilboðinu

„Við lögðum fram nýtt tilboð þar sem við reynum að taka tillit til sjónarmiða kennara og þess sem við viljum fá fram,“ sagði Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins í húsakynnum Ríkissáttasemjara í kvöld.

Kennarar hafa sagt að tilboðið hljóði upp á meiri launahækkun en 2,8% - hversu hátt er tilboðið? „Það get ég ekki sagt, en við erum að fara fram á verulegar kerfisbreytingar sem felast í breyttu vinnufyrirkomulagi kennara.“ Er stytting náms inni í þessum hugmyndum? „Það er eitt af því sem við teljum að geti komið til álita. Það er líka verið að tala um að lengja kennslutímann. Núna höldum við viðræðum áfram af fullum krafti, hér verður ekkert slakað á,“ sagði Gunnar.

Virkilega leiðinleg staða

„Þetta er virkilega leiðinleg staða, að kennarar séu settir í þær aðstæður að þurfa að boða til verkfalls. Við vonumst til þess að lausn muni finnast sem fyrst,“ segir Laufey María Jóhannsdóttir, formaður Sambands framhaldsskólanema. „Við hvetjum ríkisstjórnina til að forgangsraða rétt og taka ákvarðanir sem byggjast á langtímamarkmiðum og ávinningi til langtíma,“ segir Laufey.

Samband framhaldsskólanema hefur áður lýst yfir stuðningi  sínum við kröfur framhaldsskólakennara. „Það er ekki gott að það skuli koma til verkfalls, en við styðjum launaleiðréttingu kennara,“ segir Laufey. „Laun kennara eru allt of lág miðað við þær kröfur sem eru gerðar til þeirra.“

Frétt mbl.is: Verkfall hefst á morgun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert