Ræddu tvívegis um ungbarnahristing

Ellen Ingvadóttir dómtúlkur og maðurinn sem sakaður er um að …
Ellen Ingvadóttir dómtúlkur og maðurinn sem sakaður er um að hafa valdið dauða barns síns. mbl.is

Karlmaður sem ákærður er fyrir að hafa hrist barn sitt og með því valdið dauða þess ræddi ungbarnahristing tvívegis við barnsmóður sína, bæði fyrir og eftir fæðingu barnsins. Meðal annars ræddu þau að það gæti verið lífshættulegt ungbörnum að hrista þau.

Maðurinn var spurður út í þetta þegar hann gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins sem fór fram fyrir helgi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Eins og komið hefur fram er maðurinn ákærður fyrir að hafa hrist fimm mánaða dóttur sína svo kröftuglega að hún hlaut heilablæðingu og heilabólgu. Gera má ráð fyrir að dómur verði kveðinn upp innan fjögurra vikna.

Þegar þetta atriði var til umfjöllunar við skýrslutökuna kom fram að barnsmóðir mannsins bryddaði upp á umræðuefninu. Í síðara skiptið var það vegna frétta af breskri konu sem dæmd var í fangelsi fyrir að hafa valdið dauða barns síns með því að hrista það.

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari minntist svo aftur á umræðu þeirra tveggja í málflutningsræðu sinni. Nefndi hún þá að maðurinn væri ákærður fyrir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Í henni segir: „Nú hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ. á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.“

Hann er einnig ákærður fyrir að hafa haft ásetning til að skaða barn sitt. Skýrði Sigríður það svo: „Það liggur fyrir að ákærði og [barnsmóðir hans] höfðu rætt það oftar en einu sinni hversu hættulegt það væri að hrista ungbörn. Hann var því alveg meðvitaður um hvaða afleiðingar þetta hefði getað haft.“ Hún sagði síðar alveg ljóst að maðurinn olli ekki áverkunum af gáleysi.

Það eru aðeins tvö mál af þessum toga sem ratað hafa fyrir dómstóla, og í fyrra málinu var ákært fyrir manndráp af gáleysi. Sigríður sagði að það hefði ekki komið til greina í þessu máli. Hún sagði þá að helmingur refsirammans væri algjör lágmarks refsing „en það ætti að fara miklu hærra og nálgast hámarkið.“

Einmana og einangraður á farfuglaheimili

Maðurinn neitar sök í málinu. Víðir Smári Petersen, verjandi mannsins, sagði hins vegar í málflutningsræðu sinni, að ef svo ólíklega vildi til að hann yrði fundinn sekur í málinu þá gæti dómurinn aldrei flokkað þetta sem vísvitandi árás. „Ef hann framdi verknaðinn þá var þetta stórfellt gáleysi og heimfært undir sömu ákvæði og í hinu málinu, manndráp af gáleysi.“

Víðir sagði einnig að ef maðurinn yrði dæmdur þá ætti það að vera til lægstu mögulegu refsingu. Í hinu málinu hefði fallið 18 mánaða dómur og var hluti hans bundinn skilorði. Það hefði verið sambærilegt mál og áverkar svipaðir.

Þá sagði hann að koma ætti til frádráttar refsingu þvingunaraðgerðir. Þannig hefði maðurinn sætt gæsluvarðhaldi í kjölfar þess að dóttir hans lést og eftir það hefði hann verið úrskurðaður í farbann tíu sinnum. Maðurinn hefði engin tengsl við landið og undanfarið ár hefði hann gist á farfuglaheimili, einmana og einangraður. Hann hefði ekki getað verið í faðmi fjölskyldu sinnar eftir þennan hræðilega atburð.

Í andsvörum sínum ítrekaði Sigríður skoðun ákæruvaldsins. „Það er ekki hægt að hrista barn af gáleysi og kreista það svo fast að það fái alla þessa áverka.“ Hún vísaði til þess að áberandi marbletti mátti finna á barninu sem styðja málatilbúnað ákæruvaldsins.

Hún gaf einnig lítið fyrir sýknukröfu mannsins en gaf í skyn að verjandanum væri vorkunn. „Einhvern veginn verður hann að halda uppi vörnum þar sem hann getur ekki horfst í augu við það sem hann gerði.“

Vildi ekki leita sér hjálpar

Ítarlega hefur verið fjallað um aðalmeðferðina á mbl.is, þar með talið málflutningsræður ríkissaksóknara og verjanda mannsins. Einnig framburð mannsins sjálfs og svo réttarmeinafræðings sem skrifaði skýrslu um málið og læknisins sem framkvæmdi aðgerð á stúlkunni þegar komið var með hana á Landspítalann.

Hugsanlega má þó bæta aðeins við hvað varðar manninn sjálfan og hvað kom fram um hann. Áður hefur komið fram að hann hafi líklega verið haldinn tölvufíkn, verið kaldur og tilfinningasnauður og ekki tengst eigin barni. Hann hafi mögulega verið afbrýðisamur út í barnið enda hafi lífið breyst mikið eftir að það kom í heiminn og hallaði á hann þegar kom að athygli frá barnsmóður sinni.

„Hann virðist ekki hafa tengst barninu og það gerir það kannski auðveldara að skaða það, ef það eru ekki tilfinningar til staðar og barnið er fyrir. Lífið var gott áður, þau voru ástfangin og nutu lífsins saman,“ sagði Sigríður í málflutningsræðu sinni.

Þá vísaði hún til framburðar vitna á Landspítalanum en þangað var farið með barnið eftir að það missti meðvitund. Hjá svæfingalækni kom fram að maðurinn spurði einskis þegar barnið var á leið í aðgerð. „Hann var algjörlega frosinn og sýndi engar tilfinningar. Hvort sem hann hafi haldið að móðirin hafi gert eitthvað eða að barnið væri með lífshættulega heilablæðingu þá voru viðbrögð hans sérkennileg. Hann er algjörlega frosinn og vill ekkert vita hvað komið hefur fyrir barnið. Kannski er skýringin á því að hann vissi það og var í sjokki yfir því,“ sagði Sigríður.

Auk þess sagði Sigríður viðbrögð mannsins eftir lát barnsins einnig ansi sérstök. „Hann vildi ekki leita sér neinnar hjálpar þrátt fyrir að hafa misst dóttur sína. Hann vildi ekki tala um þetta eða hugsa. Hvort hann er í afneitun eða þetta er bæling þá er alveg ljóst að hann framdi þennan verknað og getur ekki horfst í augu við það. Rannsókn geðlæknis sýnir fram á þetta.“

Ekki með persónuleika ofbeldismanns

Ríkissaksóknara og verjanda mannsins bar reyndar alls ekki saman um hvernig túlka bæri skýrslu og orð geðlæknisins. Víðir Smári sagði niðurstöðu geðlæknisins jákvæða. Engin merki væru um þunglyndi eða siðblindu, ekkert sem gæti gefið til kynna að hann væri í afneitun. Tvennt hafi sérstaklega vakið athygli, að geðlækninum þótti það ólíklegt að maðurinn gæti með reglubundnum hætti beitt barn sitt ofbeldi og að hann hefði alls ekki persónuleika ofbeldismanns.

Eins og komið hefur fram taldi verjandinn að ekki bæri að sakfella manninn þar sem barnsmóðirin komi einnig til greina.

Sigríður sagði í seinni ræðu sinni að hún gæti ekki fellt sig við túlkun verjandans á skýrslu geðlæknisins. „Hann sagði aldrei að það væri ólíklegt að hann gæti gert þetta. Hann velti því einmitt upp að sú persónuleikamynd, þær aðstæður sem hann var í, gætu einmitt leitt til þess að hann brotnaði og fremdi brot það sem við erum að tala um hérna. Hann taldi ekkert af og frá að hann fremdi brotið.“

Í seinni ræðu sinni áréttaði Víðir Smári að hann hefði ekkert nefnt ummæli geðlæknisins varðandi þetta tiltekna brot heldur það, að geðlæknirinn hefði sagt það ólíklegt að maðurinn gæti með reglubundnum hætti beitt barn sitt ofbeldi. En eins og komið hefur fram var barnið með eldri áverka sem komu aðeins í ljós við krufningu. Ekki er ákært vegna þeirra.

Endanleg niðurstaða í haust

Að þessu sögðu þá er það fjölskipaðs héraðsdóms að fara yfir öll gögn máls og framburði fyrir dómi og komast að niðurstöðu í þessu hörmulega máli. Hörmulega því það sem er algjörlega óumdeilt er að fimm mánaða stúlkubarn lést af völdum heilablæðingar og heilabólgu. Og áverkarnir í höfði þess voru slíkir að barninu hefði ekki verið hægt að bjarga eftir að það hlaut þá.

Þá verður að þykja nokkuð öruggt að engu breyti að hvaða niðurstöðu héraðsdómur kemst, henni verður áfrýjað til Hæstaréttar sem mun eiga lokaorð í málinu, líklega þá ekki fyrr en í haust, enda liggja mörg mál á borði Hæstaréttar.

Guðrún Sesselja Arnardóttir, réttargæslumaður móðurinnar, Víðir Smári Petersen, verjandi mannsins, …
Guðrún Sesselja Arnardóttir, réttargæslumaður móðurinnar, Víðir Smári Petersen, verjandi mannsins, maðurinn og Ellen Ingvadóttir dómtúlkur. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert