„Við erum með góðan mannskap og hörkubúnað og verkinu miðar bara vel,“ segir Einar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri endurvinnslufyrirtækisins Hringrásar. Hafist var handa við að rífa flutningaskipið Fernöndu í brotajárn í byrjun síðustu viku, en unnið er að niðurrifinu á hafnarsvæðinu í Helguvík.
Einar getur ekki sagt til um hvenær verkinu lýkur nákvæmlega. „Við ætlum að láta verkin tala og sjáum síðan hvernig fram vindur,“ segir hann. Skipið var flutt til Helguvíkur í desember og síðan þá hefur undirbúningsvinna staðið yfir.
Eldur kom upp í Fernöndu í lok októbermánaðar í fyrra þegar skipið var statt út af Vestmannaeyjum. Eftir að áhöfninni var bjargað var skipið dregið til Hafnarfjarðar en út aftur þegar eldurinn blossaði upp á ný. Í framhaldinu var skipið dregið til Grundartanga þar sem olíu og olíumenguðum sjó var dælt úr því. Að lokum var það dregið til Helguvíkur.
Einar segir að brotajárnið verði að verki loknu sent á erlenda markaði. „Það verður lestað um borð í annað fraktskip sem flytur það á markaði erlendis. Það eru örlög Fernöndu.“