Matvælastofnun hefur stöðvað dreifingu dýra Hundaræktarinnar ehf. frá Dalsmynni. Óheimilt verður að afhenda dýr frá bænum þar til sýnt hefur verið fram á að kröfum Matvælastofnunar um úrbætur á aðbúnaði dýranna hafi verið sinnt og að gripið hafi verið til nauðsynlegra aðgerða á hundabúinu til halda niðri smiti af völdum þráðorma og annarra iðrasýkinga sem greinst hafa þar.
Þetta kemur fram í frétt á vef Matvælastofnunar.
Samkvæmt 35. gr. nýrra laga nr. 55/2013 um velferð dýra er Matvælastofnun heimilt að takmarka eða stöðva starfsemi þegar um alvarleg tilvik eða ítrekað brot er að ræða eða ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests. Ekki hefur verið brugðist við öllum kröfum Matvælastofnunar um bættan aðbúnað dýra og smitvarnir á búinu innan tilskilins frests. Auk þess hefur stofnuninni verið synjað um aðgang til eftirlits en henni er heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á hvern þann stað þar sem dýr eru haldin til að kanna aðstæður og aðbúnað þeirra. Þá skal umráðamaður dýra veita án endurgjalds alla nauðsynlega aðstoð við eftirlitið, svo sem aðstoð starfsmanna, aðgang að húsakynnum og tækjabúnaði sbr. 34. gr. laga um velferð dýra.
Hinn 29. febrúar 2012 greindust lirfur ormsins Strongyloides stercoralis í saursýnum úr hundum á Dalsmynni í fyrsta sinn á Íslandi. Sem kunnugt er getur þessi ormur smitað dýr og menn. Með bréfi Matvælastofnunar dagsettu 1. mars 2012 var ótímabundið bann sett við dreifingu hunda frá búinu. Matvælastofnun aflétti banninu 30. apríl 2012 þar sem engin merki um sýkingu ormsins fundust í saursýnum frá búinu sem tekin voru í tvígang í apríl 2012. Í sama bréfi var mælst til þess að búið tæki ábyrga stefnu gagnvart ormasýkingunni sem getur reynst erfið viðureignar.
Í 14. gr. laga um velferð dýra er gerð krafa um að umráðamönnum dýra beri að vernda þau gegn meiðslum, sjúkdómum og sníkjudýrum eða annarri hættu. Í skýrslu Matvælastofnunar frá 6. febrúar 2014 kemur hins vegar fram að verklag sé ekki til staðar á búinu um heilbrigðisskoðanir og lyfjameðferðir ræktunarhunda, heilsufar eða lyfjameðhöndlanir gæludýra sem komin eru í einkaeigu, þrif og sótthreinsanir. Auk þessa voru upplýsingar um hugsanlegt smit í hvolpum ekki gefnar af seljanda til kaupanda né leiðbeiningar um meðferð og sýnatökur, en samkvæmt 11. gr. dýravelferðarlaganna skal veita viðtakanda dýrs, eftir því sem við á, upplýsingar um atriði sem máli skipta um velferð þess. Þá er núverandi framkvæmd sótthreinsunar ekki fullnægjandi m.t.t. smits sem greinst hefur á búinu.
Á grundvelli ofangreindra atriða hefur Matvælastofnun ákveðið að takmarka starfsemi Hundaræktarinnar ehf. með þeim hætti að stöðva dreifingu hunda frá búinu að Dalsmynni. Málið er til áframhaldandi skoðunar hjá stofnuninni, sem útilokar ekki frekari aðgerðir til að tryggja velferð hunda á búinu.