Eigandi 101 leikskóla íhugar skaðabótamál

Leikskólinn 101.
Leikskólinn 101. mbl.is/Rósa Braga

Mál gegn tveimur starfsmönnum ungbarnaleikskólans 101 hefur verið fellt niður, þar sem það þótti ekki líklegt til sakfellingar. Rannsókn lögreglunnar beindist að meintu harðræði starfsmanna leikskólans, en málið komst upp þegar tveir sumarstarfsmenn leikskólans sýndu Barnaverndarnefnd Reykjavíkur myndskeið hinn 27. ágúst í fyrra og tilkynntu málið formlega.

Hulda Linda Stefánsdóttir, eigandi leikskólans, ákvað að hætta rekstri leikskólans í kjölfar þess að Reykjavíkurborg lét loka honum tímabundið á meðan rannsókn barnaverndar stóð yfir. Leikskólinn var að lokum tekinn til gjaldþrotaskipta hinn 22. janúar síðastliðinn.

Þyrí Steingrímsdóttir, lögmaður Huldu Lindu, segir það vera ljóst að aðgerðir borgaryfirvalda og barnaverndar hafi valdið umbjóðanda sínum tjóni og hafa þær rætt möguleikann á skaðabótamáli gegn fyrrnefndum aðilum. „Við höfum frá upphafi verið mjög ósáttar við vinnubrögðin í málinu og höfum alltaf talað um að minn umbjóðandi áskilji sér allan rétt í því sambandi,“ segir hún.

Hvorki gætt að meðalhófi né jafnræði

Í kjölfar ásakana um meint harðræði höfðu starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur samband við foreldra barna í leikskólanum og ráðlögðu þeim að fara ekki með þau á leikskólann á meðan rannsókn málsins stæði yfir.

Þyrí segir það vera ljóst að með þessu hafi öllum rekstrargrundvelli verið kippt undan starfseminni. „Hvað ef þetta hefði verið leikskóli á vegum Reykjavíkurborgar? Hefðu yfirvöld þá veitt sömu ráðleggingar og lokað honum? Ég hugsa að það hefði farið í gang frekari ferill og að barnavernd hefði komið að málinu með öðrum hætti. Það er alveg ótrúlegt hvernig þessu fór fram í upphafi málsins,“ segir hún og telur yfirvöld hvorki hafa gætt að meðalhófi né jafnræði í málinu.

Meint skattalagabrot leikskólastjórans hafa verið send áfram til ríkissaksóknara, en Þyrí telur vinnubrögðin hvað það varðar einnig vera undarleg, því enginn af hálfu skattyfirvalda hafi haft samband við hana né hennar umbjóðanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert