Frekar jákvæðir gagnvart breytingunum

mbl.is/Kristinn

Hallgrímur Indriðason, formaður Félags fréttamanna á Ríkisútvarpinu (RÚV), segir að almennt séu starfsmenn RÚV frekar jákvæðir gagnvart þeim umfangsmiklu skipulagsbreytingum á stofnuninni sem kynntar voru í dag. „En ef ég tala fyrir fréttastofuna eru menn almennt þeirrar skoðunar að Óðinn eigi að sækja um þegar starfið verður auglýst,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Á hann þar við Óðin Jónsson fréttastjóra sem var, ásamt allri framkvæmdastjórn RÚV, sagt upp störfum í dag.

Hann segir að breytingarnar, sem nýr útvarpsstjóri, Magnús Geir Þórðarson, kynnti á starfsmannafundi í morgun, hafi komið flatt upp á starfsmenn. „Við áttum kannski ekki von á svona miklum breytingum svona stuttu eftir að nýr útvarpsstjóri tæki við.

En ég hef blendnar tilfinningar til þessara breytinga. Hugsunin á bak við þær er svo sem ekkert galin, en ég set ákveðið spurningarmerki við það að fréttastjóranum sé sagt upp störfum,“ segir Hallgrímur.

Skipulagsbreytingarnar fela meðal annars í sér að öllum framkvæmdastjórum RÚV verði sagt upp störfum og ný framkvæmdastjórn skipuð þar sem lögð verður áhersla á jafnrétti og fjölbreytileika. Þá verði aukin áhersla lögð á innlenda framleiðslu, jafnrétti og nýmiðlun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert