Lögreglan kynnir nýtt app

Lögregluþjónninn, nýtt app lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Lögregluþjónninn, nýtt app lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Skjáskot af appinu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kynnir í dag nýtt app, Lögregluþjóninn. Hægt er að sækja appið frítt í Play Store og í App Store. Appið sameinar þá samfélagsmiðla sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu nýtir; Facebook, Instagram, Twitter, YouTube, Flickr og Pinterest.

„Okkar hugmynd var sú að auðvelda fólki að ná í upplýsingar frá okkur, að vita hvernig hægt er að senda okkur upplýsingar og nýta appið til að sameina á einn stað alla okkar þjónustu á samfélagsmiðlum sem stendur. Þetta er einnig stökkpallur ef við viljum bæta við þjónustuna,“ segir Þórir Ingvarsson rannsóknarlögreglumaður í samtali við mbl.is. 

Appið býður einnig upp á að hægt sé að senda svokölluð þrýstiskilaboð (e. push notification). „Þau getum við til dæmis sent út ef við leitum að einstaklingum eða til að koma út upplýsingum í almannavarnaástandi,“ segir Þórir í samtali við mbl.is.

Skilaboðin verða þó notuð sparlega, en aðallega er litið á þau sem neyðarúrræði til að koma skilaboðum beint til fólks. Ef skilaboðin eru send út hringir síminn, að því gefnu að notandinn hafi opið fyrir þann möguleika. Merki birtist í símanum og hægt er að lesa skilaboðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert