Ekki sjálfgefið að fá að lifa

Hljómsveitin Fyrirbæri árið 1985. F.v. Baldur Stefánsson, Stefán Eiríksson, Kristján …
Hljómsveitin Fyrirbæri árið 1985. F.v. Baldur Stefánsson, Stefán Eiríksson, Kristján Eldjárn Þórarinsson, Ingi R. Ingason og Haraldur Kristinsson. mbl.is

Páll Sævar Guðjónsson er þakklátur fyrir að hafa læknast af ristilkrabbameini sem hann greindist þegar hann var fjörutíu og tveggja ára faðir í fimm manna fjölskyldu. Hann ætlar að leggja sitt af mörkum í Mottumars og hefur blásið til árgangaballs Hagaskólanema þar sem allur ágóðir rennur til Krabbameinsfélagsins.

Mér rennur blóðið til skyldunnar í ljósi þess að ég greindist með ristilkrabbamein fyrir tveimur árum og hef náð fullum bata. Ég ætla að leggja mitt af mörkum nú þegar Mottumars stendur yfir,“ segir Páll Sævar Guðjónsson sem stendur næsta föstudag fyrir árgangaballi Hagaskólanema sem voru í skólanum árin 1979-1990.

Þetta eru nemendur sem fæddir eru á árunum 1965-1975 og allur ágóði af ballinu rennur til Krabbameinsfélagsins vegna Mottumars. Páll var í Hagaskóla frá 1983-1986 og hann segist ekki efast um að þetta verði frábærir endurfundir.

„Skólahljómsveitin Fyrirbæri ætlar að stíga á stokk, en hún var aðalbandið í Hagaskóla á mínum grunnskólaárum. Meðlimir hennar eru margir þekktir í dag, hana skipa meðal annars Stefán Eiríksson lögreglustjóri, Baldur Stefánsson fyrrum meðlimur Gus Gus, Ingi Ragnar Ingason kvikmyndatökumaður og Örlygur Smári Eurovision-fari. Gítarleikarinn í þessari hljómsveit var Kristján heitinn Eldjárn sem lést fyrir aldur fram, en bróðir hans, Ari Eldjárn, ætlar að hlaupa í skarðið og spila á gítar. Endurkoma þessarar hljómsveitar verður algerlega mögnuð uppákoma,“ segir Páll sem hvetur alla nemendur að taka vini með sér í fjörið.

Ákvað að vera jákvæður

Páll segir að allir hafi brugðist vel við þegar hann leitaði til þeirra. „Hlynur Sölvi Jakobsson verður plötusnúður og þegar ég hafði samband við Pál Óskar sem var nemandi í skólanum árin 1983-1986, og spurði hvort hann væri tilbúinn til að vera plötusnúður í klukkutíma á þessu balli, þá sagði hann:

„Ég ætla að koma með gallann, ljósin, confettísprengjurnar, prógrammið mitt og gera allt brjálað.“

Páll segir árin í Hagaskóla hafa verið frábær. „Þarna kynntist ég mörgum ótrúlega skemmtilegum einstaklingum og í Hagaskóla fékk ég gott uppeldi og veganesti. Þetta var gott samfélag á þessum tíma og Björn Jónsson, þáverandi skólastjóri, var alveg frábær og reyndist okkur vel.“

Páll segir að það hafi verið mikið áfall að greinast með krabbamein fjörutíu og tveggja ára heimilisfaðir í fimm manna fjölskyldu.

„Ég settist niður með konunni minni og við ræddum þetta og komumst að þeirri niðurstöðu að það eina sem hægt var að gera var að vera jákvæður og opinn og horfa fram á veginn. Ég lagði líf mitt í hendur frábærra lækna og það tókst svona vel að ég er heilbrigður í dag. Ég fór í sex mánaða lyfjameðferð sem var ströng og erfið og ég leitaði aðstoðar sálfræðinga og félagsfræðinga til að ná áttum. Börnin mín veittu mér mikinn styrk og það hjálpaði heldur betur í baráttunni.“

Páll segir að lífslíkur þeirra sem greinast með ristilkrabbamein séu góðar. „En ég þurfti að ganga hart fram til að fá þessa greiningu. Fyrst þegar ég varð var við blóð í hægðum árið 2010 var ég sendur heim og sagt að ég væri of ungur til að hafa áhyggjur af þessu. Í lok árs 2011 var ég orðinn mjög úthaldslaus og fann að eitthvað var að. Ég hélt jólin en síðan fór ég strax af stað á nýju ári og barðist fyrir því að fá þessa greiningu og fór í meðferð. Ég er afskaplega þakklátur öllu því góða fólki sem kom að þessu og ég hef lært að það er ekki sjálfgefið að maður vakni á morgnana og dragi andann.“

Karlar eiga að láta athuga sig við minnsta grun

Páll segist vissulega horfa öðrum augum á lífið eftir að hafa gengið í gegnum krabbameinsmeðferð.
„Við karlmenn þurfum að fá skimun á ristilkrabbameini rétt eins og konur fá fyrir brjósta- og leghálskrabbameini, af því að það er auðvelt að meðhöndla ristilkrabba ef hann uppgötvast nógu fljótt. Áhættuþættirnar eru nokkrir, til dæmis hreyfingarleysi, mataræði og miklar setur. Ég hvet karlmenn til að láta tékka á sér ef þeir finna minnsta grun um að eitthvað sé ekki eins og það á að vera. Það er of ríkt í okkur karlmönnum að hugsa: Þetta lagast á morgun, ég þarf ekki að hafa áhyggjur.“
Ballið verður næsta föstudagskvöld í Rúbín í Öskjuhlíðinni frá klukkan 21 til 02. Hægt er að panta miða á netfanginu hagaskolaball@gmail.com.
Páll ásamt konu sinni, Sigurlaugu Vilborgsdóttur.
Páll ásamt konu sinni, Sigurlaugu Vilborgsdóttur. mbl.is
Synr Páls veittu pabba sínum mikinn styrk í veikindunum. F.v. …
Synr Páls veittu pabba sínum mikinn styrk í veikindunum. F.v. Vilberg Andri, Ásmundur Ari og Arnþór Ingi. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert