Ferð til Cardiff endaði í Úkraínu

Axel Nikulásson fór til Úkraínu á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar …
Axel Nikulásson fór til Úkraínu á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Axel Nikulásson sendiráðunautur í sendiráði Íslands í Lundúnum vissi það ekki um hádegi 5. mars að hann myndi gista í Kænugarði um nóttina í stað Cardiff þar sem hann ætlaði að sjá leik Íslands og Wales. Um eittleytið var haft samband við Axel og hann beðinn að fara fyrir hönd Íslands í eftirlitsferð á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) til Úkraínu. 

Hann bað um að það yrði komið á hreint fyrir klukkan þrjú hvort hann færi til Úkraínu þar sem hann ætti pantaða lestarferð til Cardiff á þeim tíma . Þar ætlaði hann að fylgjast með leik landsliðs Wales í knattspyrnu karla gegn Íslandi. Leikurinn fór 3-1 fyrir Wales en Axel eyddi næstu tíu dögum við eftirlitsstörf í Úkraínu þar sem austur og vestur takast á. Enn sér ekki fyrir endann á þeirri baráttu og virðist spennan magnast dag frá degi. 

Mótmæli hófust í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, í nóvember vegna þeirrar ákvörðunar Viktors Janúkóvítsj, þá forseta landsins, að hætta við að undirrita samning um aukið samstarf við Evrópusambandið og auka þess í stað samstarfið við Rússland.

Þjóðin er í raun klofin í tvennt. Stuðningur við ESB er mikill í vestur- og miðhéruðum Úkraínu. Hann er hins vegar minni í austan- og sunnanverðu landinu þar sem margir íbúanna eru rússneskumælandi.

Samkvæmt manntali frá árinu 2001 er úkraínska móðurmál 69,5% íbúa Úkraínu og rússneska móðurmál 29,6%. Flestir íbúa vesturhlutans tala úkraínsku. Í austan- og sunnanverðu landinu er rússneska aðaltungumálið í borgunum en úkraínska í dreifbýlinu. Bæði tungumálin eru töluð í borgum í miðhlutanum en í Kænugarði er rússneska algengari.

Janúkóvítsj var steypt af forsetastóli í Úkraínu í síðasta mánuði og heldur hann til í Rússlandi. Hann segist enn hafa trú á að geta snúið aftur til Kænugarðs fljótlega.

Ástæðan fyrir því að ÖSE sendi eftirlitssveit til Úkraínu er sú að stjórnvöld í Úkraínu óskuðu eftir því á grundvelli 18. greinar, þriðja kafla Vínarskjalsins svo nefnda, sem veitir þátttökuríkjum ÖSE heimild til að bjóða ríkjum sem lýst hafa yfir áhyggjum af hernaðarumsvifum að kynna sér frá fyrstu hendi aðstæður á staðnum. Er þetta í fyrsta skipti sem ríki óskar eftir aðstoð á þeim forsendum.

Alls voru 23 ríki sem svöruðu kallinu strax í byrjun, þar á meðal öll Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin. Síðar fjölgaði í hópnum en Axel og einn annar voru þeir einu sem ekki eru starfandi hermenn. 

„Það er mikilvægt að sitja ekki við orðin tóm vegna aðgerða Rússa og eftirlit ÖSE-ríkjanna er mikilvægt til að leiða í ljós hvernig málum er háttað á Krímskaga. Nú reynir á það fyrirkomulag sem ÖSE hefur þróað til að framfylgja alþjóðlegum skuldbindingum um frið og öryggi. Það er ábyrgð okkar sem þátttökuríkis í ÖSE að taka þátt í þessu starfi þegar mest á reynir" sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra þegar hann kynnti þá ákvörðun sína að senda Íslending í eftirlitsferðina.

Komu alls staðar að lokuðum hliðum

Hópurinn hittist í Odessa og þaðan var ekið til Kerson, sem er skammt norðan við Krímskagann. Þar var hópurinn með bækistöðvar en fimm akstursleiðir eru inn á skagann. Tvær þeirra voru lokaðar fyrir hópinn enda sveitavegir þar sem ekki er hægt að snúa rútum við en eftirlitssveitin ferðaðist um á tveimur rútum og voru úkraínskir hermenn með í för.

Fyrsta daginn var reynt að komast inn í Krím um tvær eftirlitsstöðvar. Á þeirri fyrri var hópnum vel tekið en ekki heimilað að halda ferðinni áfram og bent á að reyna aðra stöð.  Á þeim síðari mætti hópnum mikil andúð. Myndatökur voru bannaðar og þeim synjað um að halda ferðinni áfram.

Daginn eftir var ákveðið að reyna að komast þriðju leiðina, austan megin við Krímskaga. „Þar mættum við vopnuðum hópi í hermannabúningum sem kenndir eru við mismunandi herdeildir. Þar var búið að setja upp vegatálma og gaddamottur. Byssum var ekki beint að okkur en við fengum mjög ákveðin skilaboð um að við fengjum ekki að fara í gegn þar sem þeir hefðu ekki leyfi frá yfirvöldum til þess að hleypa okkur áfram,“ segir Axel.

Voru aldrei hræddir um eigið öryggi

Hann segir að margt fólk hafi fylgst með og hávaði og læti verið meðal áhorfenda. „Við vorum aldrei hræddir um öryggi okkar en maður veit aldrei þegar vopnaðir menn eru komnir í hörku rifrildi við tilfinningaríkt fólk,“ segir Axel. 

Daginn eftir var farið aftur á sömu eftirlitsstöð og reynt hafði verið við tveimur dögum áður. Þá höfðu verið 20-30 menn verið þar við eftirlit en nú, tveimur dögum síðar, voru þeir orðnir 120-130 talsins. 

Að sögn Axels kom eftirlitssveit ÖSE þangað um hádegi og ljóst að þeir komu hermönnunum á óvart. Til að mynda var þremur skotum skotið út í loftið og byssum beint að eftirlitssveitinni.

Hann segir augljóst að um skipulagðan hóp hafi verið að ræða þó svo að búningarnir hafi verið ólíkir. „En þeir voru eins og eitt lið. Þeir voru eins og vel samhæfð vél,“ segir Axel og bætir við að mennirnir hafi verið mjög háværir og orðljótir. 

Til að mynda hafi fólksbíll komið að stöðinni og þar sem hann þótti ekki stöðva nægjanlega fljótt var tveimur skotum skotið fyrir framan hann. Ekki hafi farið á milli mála að þeim var alvara og að þeir voru við stjórnvölinn.

Eftirlitssveit ÖSE var synjað um að halda ferðinni áfram þar sem hún væri ekki með leyfi frá stjórnvöldum. Ekki væri möguleiki á að komast inn í Krím nema að fengnu leyfi frá stjórnvöldum þar. Ef önnur tilraun yrði gerð þá yrði vopnavaldi beitt til þess að koma í veg fyrir að hópurinn kæmist inn í Krím. „Engin ástæða þótti til að rengja þau orð,“ segir Axel.

Axel segir að sem betur fer hafi hvorki almennir borgarar né fjölmiðlar verið á staðnum og þeir hafi yfirgefið stöðina í rólegheitum. „Ég upplifði mig aldrei í neinni hættu,“ segir Axel og að það hafi verið sama tilfinning meðal annarra í hópnum en margir þeirra hafa unnið á hættulegum stöðum. „Eftir þetta var ljóst að ekki yrði reynt aftur við fyrsta hluta verkefnisins - að skoða rússnesk hernaðarumsvif.“

Með búnað frá rússneska hernum

Hann segir að þessar vopnuðu sveitir hafi verið með búnað frá rússneska hernum, svo sem talstöðvar og vopn, en búningar þeirra hafi verið úr ýmsum áttum. 

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, heldur því fram að rússneski herinn hafi ekki enn farið inn í Úkraínu en heimamenn eru sannfærðir um að þessar sveitir séu liðsmenn rússneska hersins. 

Að sögn Axels er það ekki hans hlutverk að fullyrða þar um en allt bendi sterklega til rússneskra tengsla, að minnsta kosti þekkingar á hernaði. Byrjað hafi verið á að setja upp jarðsprengjusvæði á eftirlitsstöðvunum og sú vinna komin vel á veg og allt framferði líkt og hjá þrautþjálfuðum hermönnum. 

Þegar ljóst var að ekki var hægt að komast á þennan hátt inn í Krím voru ýmsar leiðir ræddar meðal eftirlitsmanna ÖSE, meðal annars að fara með lest til Sevastopol. Var ákveðið að leigja lestarvagn og stóð til að freista þess að fara þangað morguninn eftir.  

Hættu við með skömmum fyrirvara

Um kvöldið var hins vegar ákveðið að fara ekki í lestarferðina þar sem búið var að skrifa um hana á rússneskum bloggsíðum. Eins var ljóst að hópurinn gæti ekki fengið rútur leigðar né fengið að borða á veitingastöðum í Sevastopol af ótta við skemmdarverk.

„Lestin fór af stað um morguninn og var ekki stöðvuð við fylkjamörkin heldur á stoppustöð númer tvö. Þar beið hópur með barefli og fór að vagninum sem okkur var ætlaður og æddi inn en kom að tómum vagni. Sagan endurtók síðan í Sevastopol þar sem hópur beið eftir okkur. Það segir okkur að staðan var metin rétt,“ segir Axel. Þarna var orðið ljóst að verkefninu sem upphaflega var lagt upp með var lokið. Ekki væri hægt að komast inn á Krímskagann og fylgjast með umsvifum Rússa. 

Úkraínsk stjórnvöld óskuðu þá eftir því að ÖSE myndi rannsaka hernaðarumsvif Rússa í austurhluta landsins. Fór hópurinn því til borgarinnar Donetsk, í átt að rússnesku landamærunum. 

Annað viðhorf til hermanna 

Axel segir að þar hafi viðhorf almennings verið öðruvísi gagnvart eftirlitsnefndinni en til að mynda í Kerson og Odessa. En á tveimur síðastnefndu stöðunum var viðmótið vinsamlegt. Í Donetsk var viðhorfið hins vegar fjandsamlegt og jókst andúðin eftir því sem dagarnir liðu. Þarna voru um fimmtíu í eftirlitsnefndinni á vegum ÖSE og voru nánast allir þeirra hermenn. Viðhorf almennings var sýnu verra gagnvart þeim sem voru búningum heldur en gagnvart Axel og öðrum eftirlitsmanni sem er heldur ekki hermaður.

Meðal staða sem hópurinn fór til er borgin Karkiv en þar hafa nokkrir látist í átökum undanfarnar vikur. Hvergi sáust ummerki um rússneska herinn en hinum megin við landamærin voru fleiri hermenn á ferli en venjulega, hvort sem þeir voru þar á æfingum eður ei. 

Verkefninu lauk síðan í Kænugarði og segir Axel að það hafi verið mjög sérstakt að koma á Maidan-torgið þar sem mótmælendur voru áberandi. Búið er að brjóta nánast alla steina upp á torginu og þeim beitt í mótmælum og svo var þar slönguvaður að hætti Rómverja hér á öldum áður. Á sama tíma gengur lífið sinn vanagang meðal flestra íbúa í höfuðborginni þrátt fyrir óvissu.

Búnaðurinn ekki úr járnvörudeild kaupfélagsins

Þegar Axel fór heim til Lundúna síðastliðinn sunnudag urðu 17 eftirlitsmenn eftir á vegum ÖSE í Úkraínu. Hann segir að hópurinn hafi verið mjög faglegur og ekki fullyrt eitt eða neitt hvað varðar hernaðarumsvif Rússa. „Það er rétt að taka það skýrt fram að við sáum engin hernaðarumsvif Rússa á ferðalaginu. En á sama tíma er ljóst að búnaðurinn sem vopnaðir eftirlitsmenn voru með var ekki keyptur í járnvörudeild kaupfélagsins,“ segir Axel.

Að sögn Axels var þetta viðburðarík og um leið erfið ferð en þetta er í fyrsta skipti sem hann fer í eftirlitsferð á vegum ÖSE. Það sé ljóst að mikil spenna ríkir í Úkraínu og ólík viðhorf meðal almennings eftir landsvæðum. 

Sextíu ár eru liðin frá því að forsætisnefnd Æðstaráðs Sovétríkjanna samþykkti tillögu Níkíta Khrústsjovs, þáverandi sovétleiðtoga, um að Rússland gæfi Úkraínu Krímskaga í tilefni af því að 300 ár voru liðin frá sameiningu landanna. Gjöfin vakti ekki mikla athygli í öðrum löndum á þessum tíma og þótti aðeins hafa táknræna þýðingu í ljósi þess að Úkraína var þá sovétlýðveldi og fátt benti til þess að Sovétríkin liðu undir lok. Það gerðist þó tæpum 40 árum eftir að gjöfin var ákveðin og nú er komið í ljós að hún gæti reynst miklu afdrifaríkari en nokkurn óraði fyrir.

Íbúar Krímar eru um 2,3 milljónir og skiptast í þrjá meginhópa: Úkraínumenn í norðurhlutanum, Rússa í suðurhlutanum og á milli þeirra eru tatarar sem tala tyrkneskt mál og eru múslímar. Samkvæmt manntali frá árinu 2001 eru Rússar um 58% íbúa Krímskaga, 24% Úkraínumenn og 12% eru tatarar.

Talið er að tatarar, stundum nefndir tartarar, séu nú yfir tíu milljónir og flestir þeirra búa í Rússlandi, Úkraínu, Póllandi, Búlgaríu og Kína. Í Rússlandi búa um 5,5 milljónir tatara, þar af tvær milljónir í Tatarstan.

Tatarar komu fyrst á Krímskaga á þrettándu öld og þeir stofnuðu furstadæmi þar um miðja fimmtándu öld. Þeir stjórnuðu Krím til ársins 1783 þegar skaginn var innlimaður í Rússland og Svartahafsfloti landsins kom sér upp bækistöð í hafnarborginni Sevastopol. Áætlað er að svonefndir Krím-tatarar séu nú alls um 650.000.

Jósef Stalín sakaði Krím-tatara um landráð og samstarf við þýska nasista í síðari heimsstyrjöldinni og lét flytja þá nauðuga frá skaganum til Úsbekistans árið 1944. Marga Krím-tatara dreymdi um að snúa aftur til heimahaganna við Svartahaf en það var ekki mögulegt fyrr en Sovétríkin liðu undir lok árið 1991. Síðan hafa um það bil 280.000 tatarar snúið aftur til Krímar og litlir kærleikar hafa verið með þeim og rússneska meirihlutanum á skaganum. Þegar þeir komu aftur höfðu Rússar komist yfir hús þeirra og margir tatarar hafa kvartað yfir því að þeir hafi verið beittir misrétti í Krím. Meðal annars hefur verið deilt um rétt þeirra til jarðnæðis.

Eftir að Úkraína fékk sjálfstæði árið 1991 þegar Sovétríkin liðu undir lok hélt landið yfirráðunum yfir Krím en gerður var samningur við Rússa um að þeir héldu herstöðinni í Sevastopol. Rússar undirrituðu yfirlýsingu árið 1994 þar sem þeir skuldbundu sig til að virða núverandi landamæri Úkraínu. Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar undirrituðu einnig yfirlýsinguna.

Krím hefur verið sjálfstjórnarlýðveldi innan Úkraínu og haft sitt eigið þing. Krím var einnig með eigin forseta í fyrstu en það embætti var lagt niður árið 1995, skömmu eftir að aðskilnaðarsinni og stuðningsmaður Rússlands var kjörinn í það með miklum meirihluta atkvæða. 

Um síðustu helgi samþykktu 96,6% þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslu í Krím að segja sig úr lögum við Úkraínu og sameinast Rússlandi. 

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Sergei Aksjonov, yfirlýstur forsætisráðherra Krím, undirrituðu síðan í gær milliríkjasamning um samruna Krímskaga við Rússland.

Í dag hefur síðan vopnað lið, sem styður sameiningu við Rússland, náð yfirráðum yfir helstu flotastöð úkraínska hersins á Krímskaga og blaktir þar nú rússneskur fáni við hún.

Úkraína
Úkraína Google/Elín Esther
Frá Simferopol
Frá Simferopol AFP
Stuðningsmenn Rússa á Krím
Stuðningsmenn Rússa á Krím AFP
AFP
Rússneskir hermenn fyrir utan höfuðstöðvar flotans í Simferopol
Rússneskir hermenn fyrir utan höfuðstöðvar flotans í Simferopol AFP
Margir eiga um sárt að binda eftir átökin í Kænugarði …
Margir eiga um sárt að binda eftir átökin í Kænugarði í síðasta mánuði AFP
AFP
Myndir af þeim sem voru myrtir af leyniskyttum á Maidantorgi …
Myndir af þeim sem voru myrtir af leyniskyttum á Maidantorgi í Kænugarði AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
Catherine Ashton, sem fer með utanríkismál hjá framkvæmdastjórn ESB, í …
Catherine Ashton, sem fer með utanríkismál hjá framkvæmdastjórn ESB, í miðborg Kænugarðs þar sem þeirra sem féllu fyrir hendi leyniskyttna er minnst. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert