Rannsókn banaslyss á Skeiðavegi lokið

Lögreglumenn minnast fórnarlamba umferðarslysa með mínútu þögn.
Lögreglumenn minnast fórnarlamba umferðarslysa með mínútu þögn. mbl.is/Árni Sæberg

Brýnt er að settar verði reglur um umferð vinnuvéla með áföstum ámoksturstækjum, að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa, sem hefur nú birt skýrslu um banaslys sem varð á Skeiðavegi í fyrra þegar dráttarvél ók í veg fyrir jeppa.

Ökumaður jeppans, 45 ára gamall karlmaður, lést í slysinu sem varð 25. mars 2013. Fram kemur í skýrslunni að báðir ökumenn voru með gild ökuskírteini og hvorugur undir áhrifum áfengis eða lyfja.

Nokkrir samhangandi þættir ollu slysinu

Orsök slyssins eru rakin til þess að dráttarvélinni hafi verið ekið í veg fyrir jeppann. Ámoksturstæki með baggaspjótum framan á dráttarvélinni voru staðsett of hátt frá vegi, og skertu þar af leiðandi útsýn ökumannsins auk þess að vera hættuleg öðrum vegfarendum. Við áreksturinn stungust baggaspjótin inn í bílinn vinstra megin frá í um 1 metra hæð.

Fram kemur í skýrslunni að ökumaður dráttarvélarinnar sé blindur á hægra auga og því með skert sjónsvið til hægri. Dráttarvélin kemst ekki hraðar en 40 km/klst og þegar áreksturinn varð hafði hann hægt ferðina til að taka beygjuna af Skeiðavegi.

Jeppanum var hinsvegar ekið á 110 km/klst, sem er a.m.k. 30 km/klst yfir hámarkshraða á þessum stað.

Brýnt að setja öryggisreglur og yfirfara gatnamótin

Engar öryggisreglur eru í gildi hér á landi um akstur vinnuvéla með áföstum ámoksturstækjum á vegum eða götum opnum fyrir almennri umferð.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur það mjög brýnt að settar verði reglur sem varna því að akstur með ámoksturstæki geti valdið slysi sem þessu. Tækin séu augljóslega hættuleg öðrum vegfarendum.

Bent er á að við hönnun bíla sé gengið út frá því að mesta höggið í árekstrum komi í stuðarahæð, í 30-60 cm hæð frá jörðu. Öryggismál séu miðuð út frá því. Lítil mótstaða sé hinsvegar gegn árekstri í um 1 m hæð, líkt og baggaspjót dráttarvélarinnar voru.

Nefndin beinir því til innanríkisráðuneytisins að vinna að setningu slíkra reglna og jafnframt til Vinnueftirlitsins að það fjalli sérstaklega um hættu sem öðrum vegfarendum stafar af akstri véla með ámoksturstækjum, í kennsluefni með vinnuvélanámskeiðum.

Rannsóknarnefndin leggur einnig til að gerð verði öryggisúttekt á gatnamótum Skeiðavegs við Brautarholt. Þar er byggðakjarni og almenningssundlaug, og umferðin snemma dags er tæplega 1000 ökutæki. Nefndin telur að auka þurfi umferðaröryggi á staðnum.

Sjá fyrri fréttir mbl.is um málið:

Alvarlegt umferðarslys á Skeiðavegi

Banaslys á Skeiðavegi

Lést í slysi á Skeiðavegi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert