Fríverslun við Japan „steinliggur“

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Japan hefur verið að opnast fyrir fríverslun á síðasta áratug. Við erum gamalgróin viðskiptalönd. Japan hefur reynst okkur mjög mikilvægur markaður fyrir sjávarafurðir og við höfum byggt upp orkuvinnslu okkar í samvinnu við þá og keypt þaðan allar túrbínur í íslenskar virkjanir. Svo það eiginlega steinliggur að notfæra okkur þessa opnun Japana með því að gera við þá samning um fríverslun.“

Þetta segir Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is en hann ásamt fjórum öðrum þingmönnum flokksins, Katrínu Júlíusdóttur, Helga Hjörvar, Kristjáni L. Möller og Valgerði Bjarnadóttur, hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að ríkisstjórninni verði falið að hefja þegar í stað undirbúning að gerð fríverslunarsamnings við Japan og notfæra sér þannig nýlega opnun Japana í þeim efnum. „Það getur ekki annað en verið mjög gott fyrir bæði löndin og styrkt þau góðu tengsl sem við höfum þangað austur.”

„Japan er líka jarðhitaþjóð en á því sviði hefur ekki verið mikil þróun hjá þeim á síðasta áratug eða svo og líklega vaxandi möguleikar á að markaðssetja þar íslenska jarðhitatækni eftir Fukushima-slysið sem hefur aftur vakið jarðhitaáhuga Japana. Svo erum við komnir með vaskan formann Viðskiptaráðs Japans og Íslands út í Tókýó, Bolla Thoroddsen, sem er ákaflega vel tengdur orðinn í japanska stjórnkerfinu og það mun áreiðanlega hjálpa við að sauma þetta saman.”

Bent er á í greinargerð með þingsályktunartillögunni að Japan hafi þegar gert þrettán fríverslunarsamninga og viðræður standi yfir um sjö til viðbótar. Þar á meðal við Sviss sem sé aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) líkt og Ísland. Sá samningur hafi tekið gildi árið 2008 og reynslan af honum góð að mati Svisslendinga. Einu gildi að mati flutningsmanna hvort farið verði í fríverslunarviðræður við Japan í gegnum EFTA eða með tvíhliða samningi á milli Íslands og Japans.

Einnig kemur fram að í stefnu japanskra stjórnvalda þegar kemur að fríverslunarmálum komi fram að Japan sækist sérstaklega eftir fríverslun við þjóðir sem búi yfir miklum auðlindum. „Japan hefur verið mikilvægur innflytjandi íslensks fiskfangs og þar hafa þróast markaðir fyrir nýja framleiðslu frá Íslandi, svo sem loðnuhrogn. Japan hefur sömuleiðis tekið mikilvægan þátt í uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Íslandi í 30 ár með því að útvega Íslendingum alla hverfla sem nú eru starfræktir í íslenskum orkuverum, og í mörgum tilvikum útvegað hagstætt fjármagn til kaupa á þeim.“

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra ræddi meðal annars um orkumál og mögulega fríverslun á milli EFTA og Japans við japanska ráðamenn í heimsókn sinni til landsins í síðasta mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert