Nokkrar annir hafa verið hjá Björgunarsveitinni Strákum á Siglufirði í nótt og í morgun. Í nótt var slæmt veður í bænum, m.a. fuku skúrar, bíll fauk á hliðina, stór iðnaðarhurð fauk upp og brotnaði í mél.
Einnig fuku tunnur, girðingar og fleira lauslegt um bæinn. Nú á ellefta tímanum var svo tilkynnt að þakplötur væru að losna af hesthúsi innarlega í firðinum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Þar segir ennfremur að veðrið hafi að öðru leyti ekki valdið mörgum útköllum björgunarsveita síðan um miðnætti. Þó sótti Björgunarsveitin Hérað á Egilsstöðum fastan bíl í Fagradal í nótt og Víkverji frá Vík aðstoðar nú ökumann við Dyrhólaey.