Um fimmtán hjúkrunarfræðingar hjúkrunarheimilisins Eirar hafa sagt upp störfum og taka uppsagnirnar gildi þann 1. júní nk. Sigurður Rúnar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Eirar, segir uppsagnirnar koma til vegna jafnlaunaátaksins, en það hafi leitt til ójafnaðar í kjörum. Hátt í fjörtíu hjúkrunarfræðingar starfa á hjúkrunarheimilinu og mun því stór hluti þeirra hverfa frá störfum þegar uppsagnirnar taka gildi.
Sigurður Rúnar staðfesti uppsagnirnar í samtali við mbl.is og sagði þær komnar til vegna óánægju með jafnlaunaátakið. Sumar stofnanir hafi fengið framlög, ríkisstofnanir á borð við Landspítala og fleiri, en aðrar hafi setið eftir, líkt og Eir, Hrafnista, Grund og fleiri, og því hafi átakið leitt til ójafnaðar í kjörum.
„Fyrrverandi heilbrigðisráðherra gaf út að þetta myndi fara til allra heilbrigðisstofnanna og ekki yrði undanskilið vegna rekstrarforms. Nýi heilbrigðisráðherrann, Kristján Þór Júlíusson, hefur talað um að ekki hafi verið til fjárhagsheimildir fyrir átakinu og verður þetta ekki bætt. Þetta hleypir illu blóði í málin hjá okkur,“ sagði Sigurður Rúnar í samtali við mbl.is.
„Við fáum ekki framlag eins og aðrir, það er verið að mismuna stofnunum. Við getum ekki keppt við þá aðila sem fá fjármagn frá hinu opinbera og sveitarfélögum,“ segir Sigurður Rúnar. Óskað hefur verið eftir fundi með starfsmönnum ráðuneytisins og þá hafa verið sendar upplýsingar til ráðuneytisis um stöðu mála á Eir, en fundurinn hefur ekki farið fram.
Hjúkrunarfræðingar frá Hrafnistuheimilunum fjölmenntu nýlega á fund heilbrigðisráðherra. Þeir afhentu honum kartöflur til að mótmæla misræmi á launum hjúkrunarfræðinga á öldrunarheimilum og þeirra á stofnunum sem hafa notið góðs af jafnlaunaátaki síðustu ríkisstjórnar, en munurinn er allt að 12%