Hjúkrunarfræðingar á Eir segja upp

Hjúkrunarheimilið Eir.
Hjúkrunarheimilið Eir. Ómar Óskarsson

Um fimmtán hjúkr­un­ar­fræðing­ar hjúkr­un­ar­heim­il­is­ins Eir­ar hafa sagt upp störf­um og taka upp­sagn­irn­ar gildi þann 1. júní nk. Sig­urður Rún­ar Sig­ur­jóns­son, fram­kvæmda­stjóri Eir­ar, seg­ir upp­sagn­irn­ar koma til vegna jafn­launa­átaks­ins, en það hafi leitt til ójafnaðar í kjör­um. Hátt í fjör­tíu hjúkr­un­ar­fræðing­ar starfa á hjúkr­un­ar­heim­il­inu og mun því stór hluti þeirra hverfa frá störf­um þegar upp­sagn­irn­ar taka gildi.

Ekki yrði und­an­skilið vegna rekstr­ar­forms

Sig­urður Rún­ar staðfesti upp­sagn­irn­ar í sam­tali við mbl.is og sagði þær komn­ar til vegna óánægju með jafn­launa­átakið. Sum­ar stofn­an­ir hafi fengið fram­lög, rík­is­stofn­an­ir á borð við Land­spít­ala og fleiri, en aðrar hafi setið eft­ir, líkt og Eir, Hrafn­ista, Grund og fleiri, og því hafi átakið leitt til ójafnaðar í kjör­um.

„Fyrr­ver­andi heil­brigðisráðherra gaf út að þetta myndi fara til allra heil­brigðis­stofn­anna og ekki yrði und­an­skilið vegna rekstr­ar­forms. Nýi heil­brigðisráðherr­ann, Kristján Þór Júlí­us­son, hef­ur talað um að ekki hafi verið til fjár­hags­heim­ild­ir fyr­ir átak­inu og verður þetta ekki bætt. Þetta hleyp­ir illu blóði í mál­in hjá okk­ur,“ sagði Sig­urður Rún­ar í sam­tali við mbl.is.

„Við fáum ekki fram­lag eins og aðrir, það er verið að mis­muna stofn­un­um. Við get­um ekki keppt við þá aðila sem fá fjár­magn frá hinu op­in­bera og sveit­ar­fé­lög­um,“ seg­ir Sig­urður Rún­ar. Óskað hef­ur verið eft­ir fundi með starfs­mönn­um ráðuneyt­is­ins og þá hafa verið send­ar upp­lýs­ing­ar til ráðuneyt­is­is um stöðu mála á Eir, en fund­ur­inn hef­ur ekki farið fram.

Hjúkr­un­ar­fræðing­ar frá Hrafn­istu­heim­il­un­um fjöl­menntu ný­lega á fund heil­brigðisráðherra. Þeir af­hentu hon­um kart­öfl­ur til að mót­mæla mis­ræmi á laun­um hjúkr­un­ar­fræðinga á öldrun­ar­heim­il­um og þeirra á stofn­un­um sem hafa notið góðs af jafn­launa­átaki síðustu rík­is­stjórn­ar, en mun­ur­inn er allt að 12%

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka