Rannsóknum á brununum tveimur í Írabakka og í Drafnarfelli í Breiðholti aðfaranótt mánudagsins 9. desember á síðasta ári er lokið. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kviknaði í út frá logandi kerti í íbúðinni í fjölbýlishúsinu við Írabakka en talið er að kveikt hafi verið í versluninni Mini market í Drafnarfelli. Enginn reykskynjari var í íbúðinni sem kviknaði í, aðeins á stigagangi fjölbýlishússins.
Kona og þrettán ára dóttir hennar voru í íbúðinni þegar eldurinn kom upp. Nágrannar þeirra vöknuðu við hróp og köll, en mæðgurnar kölluðu hvor á aðra. Þeim tókst að komast í gegnum eldhafið og dró stúlkan móður sína út úr íbúðinni. Þær voru báðar fluttar á Landspítala og dvaldi konan á gjörgæslu í nokkra daga, en hún hlaut brunasár og reykeitrun.
Frétt mbl.is: Konan útskrifuð af gjörgæslu
Frétt mbl.is: Kallaði í skelfingu á dóttur sína
Frétt mbl.is: „Ég ætla að halda áfram“