Verslunarráð Íslands í Japan hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fagnað er þingsályktunartillögu sem Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra, lagði fram á Alþingi í gær ásamt fjórum öðrum þingmönnum þess efnis að hafinn verði undirbúningur að fríverslunarviðræðum við Japan.
Sömuleiðis er fagnað fundi sem Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, átti með Nobuteru Ishihara, umhverfisráðherra Japans, í Tókýó 17. febrúar síðastliðinn þar sem einnig hafi verið rætt um fríverslunarsamning á milli landanna. Hvetur ráðið jafnframt til þverpólitískrar samstöðu um málið. Verslunarráðið hafi unnið að því markmiði á undanförnum vikum og mánuðum að slíkar viðræður geti hafist.
„Ljóst er að japönsk stjórnvöld vinna nú markvisst að því að styrkja samkeppnishæfni sína á alþjóðavettvangi og hafa nú þegar gert 13 tvíhliða fríverslunarsamninga og vinna að gerð sjö til viðbótar. Á sama tíma leggja japönsk stjórnvöld meiri áherslu á frekara samstarf við Ísland eins og fram hefur komið í viðræðum japanskra stjórnvalda við hin svokölluðu NB8-ríki, þ.e. norrænu þjóðirnar og Eystrasaltsríkin,“ segir í tilkynningunni.
Bent er á að utan Evrópu sé Japan annað stærsta viðskiptaland Íslands að undanskildum Bandaríkjunum og ennfremur þriðja stærsta efnahagsveldi heims. „Framundan eru mjög spennandi tímar í samstarfi Íslands og Japans. Á næsta ári fagna þjóðirnar 60 ára stjórnmálasamstarfi. Samstarf ríkjanna hefur reynst gæfuríkt fyrir báða aðila og því hvetur Verslunarráð Íslands í Japan til þverpólitískrar samstöðu um fríverslunarviðræður við Japan.“