Gagnrýnin oft ósanngjörn og óvægin

Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis segir að harkalega sé að orði komist í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð og að meginstefnu til sé ekki hægt að taka undir þá áfellisdóma sem þar koma fram.

Álit meirihlutans var birt á vef Alþingis í gær.

Þar kemur oft og tíðum fram hörð gagnrýni á vinnubrögð og efnistök rannsóknarnefndarinnar. Til dæmis hafi nefndin ekki kynnt sér öll nauðsynleg gögn málsins og ekki leitað eftir því að fá allar fullyrðingar staðfestar. Þá hafi þeim einstaklingum sem nefndin fjallar um í skýrslunni ekki verið veittur andmælaréttur.

„Hefði slíkur andmælaréttur verið veittur vegna skýrslunnar hefði verið unnt að leiðrétta rangfærslur, vanda skýrslugerð og veita fyllri upplýsingar,“ segir meðal annars í álitinu.

Segja nefndina ofmeta tapið

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að mögulegt heildartap Íbúðalánasjóðs geti verið um 270 milljarðar króna. Meirihlutinn segir hins vegar að tapið hafi ekki enn verið metið á raunhæfan og réttan hátt, „enda algjörlega óljóst hversu hátt útlánatap sjóðsins verður þegar upp er staðið.

Af gögnum málsins [að dæma] virðist tap sjóðsins þó vera nær þeim 64 milljörðum sem stjórn sjóðsins hefur lagt fram gögn og rök um en þeim 270 milljörðum sem rannsóknarnefndin hefur haldið fram og að meginorsök tapsins sé að rekja til efnahagshrunsins,“ segir í áliti meirihlutans.

Áréttar meirihlutinn að enn hafi ekkert komið fram sem bendir til þess að þær fjárhæðir sem rannsóknarnefndin teflir fram eigi við rök að styðjast.

Gerði of lítið úr þekkingu stjórnarmanna

Í álitinu segir jafnframt að rannsóknarnefndin hafi gert of lítið úr þekkingu og hæfi stjórnarmanna sjóðsins. Telur meirihlutinn einnig að gagnrýni nefndarinnar um að ekki hafi verið til staðar skýr húsnæðisstefna sé óréttmæt.

„Ofsagt er hjá rannsóknarnefndinni að Íbúðalánasjóður og starfsmenn hans hafi haft frumkvæði að því að fara í virka samkeppni við banka um lánveitingar,“ að mati meirihlutans. Bankarnir virðist mun fremur hafa átt frumkvæði að því að hefja samkeppni við sjóðinn um veitingu fasteignalána með það að markmiði að leysa Íbúðalánasjóð af hólmi sem lánveitendur íbúðalána.

Gagnrýnin oft og tíðum ósanngjörn

Þá telur meirihlutinn að gagnrýni nefndarinnar á skýrslur Ríkisendurskoðunar á árunum 2005 og 2006 sé oft og tíðum ósanngjörn. „Hefði rannsóknarnefndin óskað eftir upplýsingum frá ríkisendurskoðanda eða starfsmönnum hans eða kallað þessa einstaklinga í skýrslutöku hefði margt skýrst og koma hefði mátt í veg fyrir misskilning og oftúlkanir,“ segir í álitinu.

Meirihlutinn telur einnig að efnistök nefndarinnar hvað viðkemur umfjöllun um einstaklinga, ákvarðanir þeirra og pólitískar skoðanir eða tengingar þeirra sé gagnrýnisverð. Ótækt sé að gagnrýna ákvarðanir sem einstaklingar taka við störf sín einungis á grundvelli pólitískra skoðana þeirra. Áréttar meirihlutinn að slík gagnrýni geti rýrt mannorð einstaklinga.

„Nauðsynlegt er að ræða við alla þá einstaklinga sem talið er að hafi eitthvað til málanna að leggja og geta veitt mikilvægar upplýsingar um einstök atriði sem til rannsóknar eru. Á þetta ekki hvað síst við þegar þeir eru nefndir á nafn í skýrslunni og aðgerðir þeirra gagnrýndar,“ segir í álitinu.

Einstaklingar verða fyrir óvæginni gagnrýni

Í álitinu kemur fram að í skýrslunni sé gert mikið úr pólitískum tengingum. Rannsóknarnefndin segi meðal annars að pólitískar ráðningar í stöðu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, forstjóra Fjármálaeftirlits og bankastjóra Seðlabanka Íslands hafi rýrt trúverðugleika og virkni eftirlits þessara stofnana með starfsemi sjóðsins.

„Þá verða einstaklingar fyrir mjög óvæginni gagnrýni í skýrslunni og vafasamar og oft og tíðum meiðandi ályktanir eru dregnar um hæfi þeirra og þekkingu,“ nefnir meirihlutinn.

Að auki hafi gagnrýni rannsóknarnefndarinnar beinst að aðgerðum sem þeir gripu til eða stóðu fyrir og dregið í efa að þær hafi verið réttar eða réttlætanlegar, meðal annars vegna meintra pólitískra tenginga og skoðana.

Þeir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnendar Alþingis, Brynjar Níelsson og Pétur H. Blöndal, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og Karl Garðarsson, Haraldur Einarsson og Willum Þór Þórsson, þingmenn Framsóknarflokksins, skrifa undir álit meirihlutans.

Sigurður Hallur Stefánsson, fyrrverandi héraðsdómari og formaður rannsóknarnefndarinnar, á blaðamannafundi.
Sigurður Hallur Stefánsson, fyrrverandi héraðsdómari og formaður rannsóknarnefndarinnar, á blaðamannafundi. mbl.is/Golli
Rannsóknarnefndina skipuðu þau Sigurður Hallur Stefánsson, Jón Þorvaldur Heiðarsson og …
Rannsóknarnefndina skipuðu þau Sigurður Hallur Stefánsson, Jón Þorvaldur Heiðarsson og Kirstín Þ. Flygenring. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert