Hlédís Sveinsdóttir er 34 ára og hefur reynt margt. Hún er úr Staðarsveit, hefur brennandi áhuga á íslenskum landbúnaði og sinnir honum af miklum móð en er nú „fyrsti varamaður á dekk“ á bátum sem róa frá Arnarstapa.
Um þessar mundir er Hlédís í tímabundnu verkefni hjá Akraneskaupstað að undirbúa markað sem verður í bænum á laugardögum í sumar. Nýverið sá hún um undirbúning og framkvæmd matarmarkaðar ljúfmetisverslunarinnar Búrsins í Hörpu sem sló rækilega í gegn. Hún vann um tíma sem hárgreiðslukona, á fyrirtæki sem gefur fólki kost á að eignast kindur og fer reglulega á sjóinn. Henni finnst fjölbreytnin mikilvæg.
„Ég er fædd og uppalin í sveit og maður áttar sig á því með auknum þroska hve ofboðslega dýrmætt það var. Og að hafa þá breidd í lífinu að geta verið tengd landbúnaðinum og líka stundað sjómennsku er dásamlegt. Að fara í tvo daga á sjó frá Arnarstapa er eins og að koma inn í nýjan heim. Það er ekkert betra en vera á litlum bát og sjórinn frussast yfir mann! Það er ótrúlega hressandi.“
Nánar er rætt við Hlédísi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.