Deilur og verkföll í brennidepli

Verkfall framhaldsskólakennara hefur staðið yfir í rúmar tvær vikur. Engin …
Verkfall framhaldsskólakennara hefur staðið yfir í rúmar tvær vikur. Engin sátt er í sjónmáli. mbl.is/Ernir

Mikið hefur verið um kjaradeilur, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði, á undanförnum misserum. Nokkur verkföll eru þegar hafin og að öllu óbreyttu munu fleiri skella á á næstu vikum. Kjaraviðræður eru víðast hvar komnar í hnút og virðist engin sátt vera í sjónmáli.

Stéttarfélög kennara á öllum skólastigum - frá leikskóla og upp á háskólastigið - hafa sett fram kröfur um miklar launahækkanir en hingað til hefur lítið þokast í samkomulagsátt.

Samkvæmt talningu mbl.is eru kennarar, sem og aðrir félagsmenn þessara stéttarfélaga, tæplega tíu þúsund talsins og allt í allt eru nemendurnir ríflega eitt hundrað þúsund talsins. Kjaradeilurnar snúa því að bæði námi og störfum þriðjungs þjóðarinnar.

Setur allar áætlanir í uppnám

Mikill meirihluti félagsmanna í Félagi háskólakennara hefur veitt stjórn félagsins umboð til þess að boða til verkfalls í vor, náist ekki samkomulag þangað til. Komi til verkfallsins munu kennarar, prófessorar og annað háskólamenntað stjórnsýslufólk í Háskóla Íslands, alls 920 manns, leggja niður störf á hefðbundnum próftíma, frá 25. apríl til 10. maí.

Háskólakennarar hafa fundað með samninganefnd ríkisins hjá ríkissáttasemjara en mikið ber í milli. Jörundur Guðmundsson, formaður Félags háskólakennara, hefur sagt að háskólakennarar hafi dregist talsvert aftur úr sambærilegum hópum í öðrum skólum og stéttum.

„Háskólinn og starfsfólk hans hefur tekið á sig mikinn niðurskurð eftir hrunið og við teljum tíma til kominn að það verði leiðrétt,“ segir hann.

Tilkynna þarf verkfallsboðun fimmtán dögum fyrir fyrirhugað verkfall, eða 10. apríl næstkomandi. Mikil óvissa ríkir um það hvort þeir fjórtán þúsund nemendur Háskóla Íslands geti lokið þeim námskeiðum sem þeir hafa stundað á þessari vorönn, komi til verkfallsins.

Enn engin lausn í sjónmáli

Enn virðist engin lausn vera í sjónmáli í kjaradeilu framhaldsskólakennara og ríkisins. Verkfall framhaldsskólakennara hefur nú staðið yfir í rúmlega tvær vikur, en forystumenn kennara eru þó bjartsýnir á að deilan leysist nú í vikunni.

Ólafur H. Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum, hefur staðfest að kennurum hafi verið boðin launahækkun upp á meira en 10%. Kennarar hafa hins vegar ávallt farið fram á 17% launahækkun. Þeir segja að það sé sá munur sem er á launum þeirra og sambærilegra stétta.

Verkfallið nær til um 1.900 kennara og stjórnenda í framhaldsskólum og um 20 þúsund nemenda.

Ráðherra boðar kerfisbreytingar

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur sagt að ákveðnar kerfisbreytingar innan skólakerfisins, svo sem stytting náms, geti skapað svigrúm fyrir kjarabætur til kennara.

„Það er augljóst að staðan á almennum vinnumarkaði setur mjög þröngan ramma og hlýtur að hafa mótandi áhrif á stöðuna sem er uppi varðandi kjarasamninga hjá ríkinu. Þess vegna tel ég að það sé mikilvægt að nýta það tækifæri sem myndast við að fara í ákveðnar breytingar á framhaldsskólakerfinu,“ sagði Illugi við mbl.is.

Sjálfir framhaldsskólanemendurnir hafa miklar áhyggjur af stöðu mála. Þeir hafa sagt að verkfallið setji allar áætlanir til framtíðar í uppnám og þá séu jafnframt skýr dæmi um að margir séu farnir að svipast um eftir vinnu. Þá geti verkfallið jafnframt ýtt undir brottfall, sér í lagi eftir því sem lengra líður á það.

Samningar lausir hjá kennurum í Versló

Kjarasamningur kennara við Verslunarskóla Íslands rann út í gær. Atkvæði verða greidd í vikulokin um boðun verkfalls hinn 23. apríl næstkomandi. „Það var fundur aftur í morgun þar sem lýst var yfir að viðræður hefðu reynst árangurslausar,“ sagði Óli Njáll Ingólfsson, sem situr í samninganefnd kennara, í samtali við mbl.is í gær.

Kjaradeilu kennara og stjórnenda Verslunarskólans var vísað til ríkissáttasemjara hinn 11. mars síðastliðinn og síðan þá hafa verið haldnir nokkrir árangurslausir samningafundir. Lítið hefur þokast í samkomulagsátt.

Ef af verkfalli verður munu kennarar og stjórnendur Versló leggja niður störf miðvikudaginn 23. apríl, sem er fyrsti kennsludagur eftir páskafrí.

Grunnskólakennarar að ókyrrast

Kjaraviðræður grunnskólakennara eru í hnút og hefur þeim verið vísað til ríkissáttasemjara. Félag grunnskólakennara er langfjölmennasta stéttarfélag kennara en félagsmenn eru um 4.600 talsins. Komi til verkfalls er ljóst að yfir 42 þúsund grunnskólanemendur muni ekki mæta til skóla.

Krafa grunnskólakennara er sú að laun þeirra verði sambærileg við laun annarra háskólamenntaðra starfsmanna með sambærilega menntun. Það jafngildir um 25 til 30% launahækkun.

Ekki hefur enn verið rætt um atkvæðagreiðslu um boðun verkfallsaðgerða, en eftir því sem lengra líður eykst óvissan.

Samninganefnd Félags grunnskólakennara hefur athugað möguleikann á því að gera kjarasamning til ársins 2017, samhliða breyttu vinnufyrirkomulagi.

Vilja sambærilegar launahækkanir

Þá þykir jafnframt ljóst að leikskólakennarar muni ekki sætta sig við minni launahækkanir en aðrar kennarastéttir. Kjarasamningur þeirra við sveitarfélögin verður laus þann 30. apríl næstkomandi, en Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, hefur sagt að stíga þurfi stór skref til að fjölga leikskólakennurum, sem hafi farið fækkandi.

Hækkun launa sé stærsti þátturinn í því.

Leikskólabörn eru um tuttugu þúsund talsins og eru um 2.300 skráðir í Félag leikskólakennara.

Myndi valda verulegum seinkunum

Starfsmenn Isavia hafa samþykkt að grípa til verkfallsaðgerða þann 8. apríl næstkomandi, náist ekki samningar fyrir þann tíma. Um eru að ræða félagsmenn þriggja félaga: Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR), SFR - stéttarfélags í almannaþjónustu og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Komi til verkfalls mun það hafa mikil áhrif á starfsemi flugvalla landsins og raska öllu flugi, bæði millilanda- og innanlandsflugi, að sögn Kristjáns Jóhannssonar, formanns FFR. „Ég held að fólk geti búist við verulegum seinkunum þann tíma sem verkfallið stendur yfir,“ sagði hann í samtali við mbl.is.

Aðgerðirnar munu ná til flugvalla á landinu öllu auk Keflavíkurflugvallar.

Atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna leiddi í ljós að 88% samþykktu verkfallsaðgerðirnar, 9% höfnuðu þeim og 3% atkvæða voru auð eða ógild.

„Þetta í rauninni endurspeglar það andrúmsloft í fyrirtækinu sem við höfum verið að reyna að koma á framfæri í samningaviðræðunum,“ segir Kristján. „Það er rík ástæða fyrir því að fólk bregst svona við og vill fara í verkfall til að ná fram kröfum sínum.

Svona er staðan. Fólk telur sig eiga meira inni hjá Isavia en það sem félagið hefur boðið,“ nefndi Kristján enn fremur.

Stjórnvöld grípa inn í Herjólfsdeiluna

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum fyrr í dag að leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp um að fresta til 15. september verkfallsaðgerðum sem Sjómannasambands Íslands hóf á Herjólfi 5. mars síðastliðinn.

Verkfall undirmanna á Herjólfi hefur valdið Eyjamönnum og fyrirtækjum þeirra margvíslegum vanda og tekjutapi og taldi ríkisstjórnin að hagsmunirnir væru það miklir að þeir réttlættu inngrip stjórnvalda.

Samtök atvinnulífsins hafa bent á að kröfur Sjómannafélagsins jafngildi því að föst laun bátsmanna hækki að lágmarki um 160 þúsund krónur á mánuði. Ekki sé hægt að fallast á slíkar kröfur.

Í kröfum Sjómannafélagsins felast 16% hækkun á grunnkaupi, hækkun á næturvinnuálagi frá 33% upp í 80% og að fá sjómannaafslátt til baka sem var afnuminn um síðustu áramót.

Undanfarið hefur Herjólfur eingöngu siglt eina ferð á dag um Þorlákshöfn, frá mánudegi til fimmtudags. Enn ber mikið í milli samningsaðila. Síðasti sáttafundurinn fór fram síðastliðinn fimmtudag, en ekki hefur þótt ástæða til að boða til fundar á nýjan leik.

Verkfalli afstýrt

Allt benti til þess að af verkfalli yrði hjá starfsmönnum Elkem Ísland á Grundartanga. Kjaraviðræðurnar gengju hægt og átti verkfallið að skella á þann 25. mars síðastliðinn. Hins vegar undirritaði Verkalýðsfélag Akraness nýjan kjarasamning við forsvarsmenn Elkem og Samtök atvinnulífsins í tæka tíð og var verkfallinu því afstýrt.

„Formaður félagsins skal fúslega viðurkenna að það var afar ánægjulegt og mikilvægt að ná að klára undirritun á nýjum kjarasamningi áður en til verkfalls kæmi, enda er það morgunljóst að í verkfallsátökum stendur sjaldan einhver upp sem sigurvegari,“ sagði í frétt um málið á vef verkalýðsfélagsins.

Mikill meirihluta starfsmanna félagsins, eða 84,4%, hafði samþykkt að boða til verkfalls.

Nýi kjarasamningurinn fyrir starfsmenn Elkem Ísland á Grundartanga gildir frá 1. janúar 2014 og nær til þriggja ára.

Kennarar hafa fjölmennt á fundi í verkfallsmiðstöð sinni.
Kennarar hafa fjölmennt á fundi í verkfallsmiðstöð sinni. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Samninganefndir framhaldsskólakennara og ríkisins ásamt ríkissáttasemjara við samningaborðið.
Samninganefndir framhaldsskólakennara og ríkisins ásamt ríkissáttasemjara við samningaborðið. mbl.is/Golli
Verkfallið setur allar áætlanir nemenda í uppnám.
Verkfallið setur allar áætlanir nemenda í uppnám. mbl.is/Eggert
Leikskólakennarar sætta sig ekki við minni launahækkanir en aðrar kennarastéttir.
Leikskólakennarar sætta sig ekki við minni launahækkanir en aðrar kennarastéttir. mbl.is/Heiðar
Starfsmenn Isavia hafa samþykkt að grípa til verkfallsaðgerða.
Starfsmenn Isavia hafa samþykkt að grípa til verkfallsaðgerða. mbl.is/Sigurgeir
Verkfall flugmálastarfsmanna myndi raska öllu millilandaflugi.
Verkfall flugmálastarfsmanna myndi raska öllu millilandaflugi. mbl.is/Sigurður Bogi
Verkfall undirmanna á Herjólfi hefur valdið Eyjamönnum og fyrirtækjum þeirra …
Verkfall undirmanna á Herjólfi hefur valdið Eyjamönnum og fyrirtækjum þeirra margvíslegum vanda. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert