Hanna Birna: Lögin eru neyðarúrræði

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ástandið í Eyjum er einfaldlega orðið þannig að það er því miður þörf á því að löggjafinn komi að málinu,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, um fyrirhugað inngrip ríkisstjórnarinnar í Herjólfsdeiluna. Búist er við að lagafrumvarp um frestun verkfallsaðgerða verði afgreitt í dag.

Sjómannasamband Íslands hóf verkfallsaðgerðir á Herjólfi 5. mars og hefur hvorki gengið né rekið að ná samkomulagi síðan. Verkfallið hefur valdið Eyjamönnum og fyrirtækjum þeirra margvíslegum vanda og tekjutapi.

Fara mildari leið

Á ríkisstjórnarfundi í morgun var samþykkt að leggja fyrir Alþingi frumvarp um að fresta verkfallsaðgerðum til 15. september. Hanna Birna segir það alltaf neyðarúrræði að þurfa að setja lög á kjaradeilur.

„En að þessu sinni þá metum við það svo að almannahagsmunir krefjist þess að gripið sé inn í, bæði vegna þess hversu langan tíma þetta hefur tekið og hversu langt virðist ennþá vera á milli, því báðir deiluaðilar segja að sátt sé ekki í sjónmáli.“

Hanna Birna bendir á að löggjafinn hafi áður gripið inn í kjaradeilur sem vörðuðu samgöngur til Vestmannaeyja með með skipan gerðardóms sem skar úr um kaup og kjör.

„Það eina sem er öðruvísi núna er að með þessu inngripi förum við mildari leið. Við setjum lög sem banna aðgerðirnar tímabundið, en hvetjum deiluaðila til að setjast niður og gefum þeim frest til 15. september til að klára málið.“

Vonast eftir hraðri afgreiðslu

Svandís Svavarsdóttir setur mikinn fyrirvara við afskipti löggjafans af kjaradeilum í Morgunblaðinu í dag og Árni Páll Árnason segir að mjög þung rök þurfi fyrir slíku inngripi.

Frumvarpið verður lagt fyrir þingflokkana í dag og tekið fyrir á Alþingi síðdegis. Hanna Birna segist vonast til að málið verði klárað í dag og lögin samþykkt.

„Ég hef rætt málið við stjórnarandstöðuna og er fullkomlega meðvituð um að svona mál eru alltaf erfið, en það hefur gerst í tíð fleiri ríkisstjórna að neyðin kalli á svona aðgerðir. Ég á ekki von á því að stjórnarandstaðan setji sig á móti því að málið fái afgreiðslu, en frumvarpið er auðvitað alfarið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert