Óttast fordæmisgildi laganna

mbl.is/Hjörtur

Fundur á Alþingi hófst kl. 22:55 en honum hafði ítrekað verið frestað í kvöld. Eina málið á dagskrá er umræða um frumvarp um frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE. Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, mælti fyrir frumvarpinu í dag. 

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokssins, mælti fyrir nefndaráliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, mælti fyrir nefndaráliti minnihluta nefndarinnar.

Árni Páll sagðist ekki telja efnislegar forsendur til að fallast á samþykkt laganna. Sagðist hann óttast fordæmisgildi þeirra, benti á að aðrar kjaradeilur stæðu yfir og ákvörðunin hefði fordæmisgildi gagnvart þeim. Nefndi hann meðan annars verkfall framhaldsskólakennara og stjórnenda í framhaldsskólum og yfirvofandi verkfall starfsmanna Isavia. 

Nokkrir komu fyrir nefndina í kvöld, þar á meðal Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, og Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands.

Fjórir eru á mælendaskrá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert