Segir inngripin standast stjórnarskrá

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.

Fyrirhuguð inngrip ríkisstjórnarinnar í Herjólfsdeiluna standast stjórnarskrá, að mati Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Um sé að ræða neyðarúrræði, en mat ríkisstjórnarinnar sé hins vegar svo að almannahagsmunir krefjist þess að gripið sé inn í kjaradeiluna.

Nú er rætt um málið á Alþingi en að umræðu lokinni er reiknað með því að lagafrumvarp ráðherrans um frestun verkfallsaðgerða verði afgreitt.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að ríkisstjórnin gripi nú til aðgerða sem varða stjórnarskrárbundin mannréttindi. „Hefur ráðherrann fullvissað sig um að frumvarpið standist stjórnarskrá og þær skyldur sem hún leggur okkur á herðar?“ spurði Helgi meðal annars.

Hann velti því einnig fyrir sér hvort ríkisstjórnin hefði getað gert eitthvað annað og meira til að leysa deiluna.

Hanna Birna sagði að það væri alls ekki létt verk að flytja frumvarp af þessu tagi. Ríkisstjórnin hefði hins vegar farið yfir málið margoft og metið það svo að hagsmunirnir væru það miklir að þeir réttlættu slíkar aðgerðir.

Hún benti einnig á að löggjafinn hefði áður gripið inn í kjaradeilur sem vörðuðu samgöngur til Vestmannaeyja með skipan gerðardóms sem skar úr um kaup og kjör.

Sjómannafélag Íslands hóf verkfallsaðgerðir á Herjólfi 5. mars og hefur hvorki gengið né rekið að ná samkomulagi síðan. Verkfallið hefur valdið Eyjamönnum og fyrirtækjum þeirra margvíslegum vanda og tekjutapi.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert