Verkfallsfrumvarpið í nefnd

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Frumvarp ríkisstjórninnar um að fresta verkfalli undirmanna á Herjólfi til 15. september næstkomandi er nú komið til umhverfis- og samgöngunefndar en fyrstu umræðu lauk á sjöunda tímanum í kvöld.

Stefnt er að því að samþykkja frumvarpið í kvöld.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpinu en samkvæmt því mun síðasti kjarasamningur gilda fram á haust, nema samningar náist í Herjólfsdeilunni fyrir þann tíma. 

Miklar umræður sköpuðust um frumvarpið á þinginu áðan. Steingrímur J. Sigfússon sagði til dæmis að lögunum væri beint að stjórnarskrárvörðum rétti manna til að semja um kaup og kjör.

Hanna Birna benti hins vegar á að inngrip stjórnvalda stæðust stjórnarskrá og að um væri að ræða algjört neyðarúrræði. Ekki væri létt verk að flytja frumvarp af þessu tagi.

Sjómannafélag Íslands hóf verkfallsaðgerðir á Herjólfi 5. mars og hefur hvorki gengið né rekið að ná samkomulagi síðan. Verkfallið hefur valdið Eyjamönnum og fyrirtækjum þeirra margvíslegum vanda og tekjutapi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert