Vísir „ber mikla samfélagslega ábyrgð“

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, segir að það sé óeðlilegt þegar fyrirtæki, sem eiga sér sögu eins og útgerðarfyrirtækið Vísir, taki ekki meiri samfélagslega ábyrgð en raun ber vitni.

„Þau tíðindi hafa borist að fyrirtækið Vísir í Grindavík ætlar að loka fyrirtæki sínu á þremur útgerðarstöðum á landinu, á Þingeyri, Húsavík og Djúpavogi. Það eru 50 manna vinnustaðir á hverjum stað og mér þykir þetta dapurleg tíðindi hjá þessu fyrirtæki sem fengið hefur meðgjöf í formi byggðakvóta á þessum stöðum í gegnum árin,“ sagði hún á Alþingi í dag.

Það hafi aflaheimildir frá Breiðdalsvík og Djúpavogi og beri mikla samfélagslega ábyrgð.

„Líta þessir aðilar í Grindavík á þetta fólk sem hefur byggt upp þessi fyrirtæki sem einhverja þræla í vinnubúðum sem þeir geta tekið með sér á þann stað sem þeir kjósa hverju sinni? Eða er þetta fólk sem á rétt til að stunda vinnu á þeim stöðum sem það býr á, þar sem það hefur byggt upp heimili sín?“ spurði Lilja Rafney.

Hann segir að jafnan sé talað um forsendubrest þegar rætt sé um leiðréttingu lána.

„Hver er forsendubrestur þessa fólks, sem nú stendur frammi fyrir því að eignir þess verði jafnvel dæmdar verðlausar því að stærsta fyrirtækið á staðnum, eins og á Þingeyri og Djúpavogi, leggur upp laupana?“

Sem betur fer séu þó fleiri atvinnumöguleikar á Húsavík.  

„Mér finnst að þessir aðilar eigi að sjá sig um hönd og endurskoða þessa ákvörðun sína,“ sagði hún að lokum.

Eins og greint hefur verið frá áformar Vísir að flytja alla fiskvinnslu fyrirtækisins í áföngum til Grindavíkur, en þar með munu starfsstöðvar félagsins á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík leggjast niður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert