Hópveikindi hjá Herjólfi

Herjólfur
Herjólfur mbl.is/Eggert

Sex und­ir­menn í áhöfn Herjólfs hringdu sig inn veika í morg­un, degi eft­ir að rík­is­stjórn­in samþykkti lög á verk­fallsaðgerðir þeirra. Eim­skip brást við með því að kalla til auka­menn og sigldi skipið frá Vest­manna­eyj­um eft­ir smátaf­ir. 

„Það er eitt­hvert heilsu­leysi að hrjá mann­skap­inn,“ seg­ir Jón­as Garðars­son, formaður Sjó­manna­fé­lags Íslands, sem sinn­ir kjaraviðræðunum fyr­ir hönd und­ir­manna á Herjólfi.

Í hópn­um eru 12 starfs­menn sem ganga vakt­ir og áttu sex þeirra að mæta til vinnu í morg­un þegar Herjólf­ur sigldi frá Eyj­um, en all­ir til­kynntu veik­indi. Taf­ir urðu á brott­för skips­ins en Eim­skip brást við með því að fá starfs­menn í landi til að ganga í störf­in. 

„Það ligg­ur fyr­ir að skipið er ólög­lega mannað. Það er mannað ein­hverj­um bíl­stjór­um og ég dreg það í efa að þeir hafi til­skil­in rétt­indi sem þarf til þess að vera í áhöfn á farþega­skipi,“ seg­ir Jón­as. Ekki hef­ur náðst í Eim­skip til að fá frek­ari upp­lýs­ing­ar um málið.

Óvíst hvort veik­ind­in verði langvar­andi

Frum­varp rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að fresta verk­falli und­ir­manna á Herjólfi til 15. sept­em­ber varð að lög­um á Alþingi eft­ir miðnætti. Hanna Birna Kristjáns­dótt­ir inn­an­rík­is­ráðherra mælti fyr­ir frum­varp­inu um fimm­leytið í gær og fékk það því nokkuð hraða af­greiðslu.

„Þetta fer mjög illa í alla, að út­gerðin sé leyst frá þeirri ábyrgð að semja við starfs­fólk sitt. Það er óþolandi,“ seg­ir Jón­as. Aðspurður seg­ist hann ekki vita hvort veik­ind­in sem hrjá áhöfn­ina séu það al­var­leg að bú­ast megi við langvar­andi fjar­vist­um frá vinnu.

Inn­an­rík­is­ráðherra sagði í sam­tali við mbl.is í gær að lög­in gegn verk­fallsaðgerðunum væru neyðarúr­ræði vegna al­manna­hags­muna og benti á að for­dæmi væru fyr­ir slíkri laga­setn­ingu vegna sam­gangna til Vest­manna­eyja.

Jón­as seg­ir það engu skipta þótt for­dæmi séu og bend­ir á að árið 1993, þegar lög voru sett á verk­fall Herjólfs, hafi staðan verið allt önn­ur. „Þá var ekki yf­ir­vinnu­bann eins og núna, þá sigldi skipið ekki neitt held­ur var bara al­veg stopp. Það er ekki sam­bæri­legt.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert