Staðgönguáhöfn Herjólfs í lagi

Herjólfur siglir samkvæmt áætlun í Landeyjahöfn í dag þrátt fyrir …
Herjólfur siglir samkvæmt áætlun í Landeyjahöfn í dag þrátt fyrir tilkynnt veikindi allra undirmanna. mbl.is/Árni Sæberg

Samgöngustofa sér ekki ástæðu til að gera athugasemd við mannabreytingar sem urðu í áhöfn Herjólfs í morgun, þar sem landverkamenn voru fengnir til að fylla í skarðið fyrir undirmenn skipsins vegna skyndilegra hópveikinda þeirra allra.

Veikindin voru tilkynnt snemma í morgun, nokkrum klukkustundum eftir að Alþingi samþykkti á miðnætti lög sem fresta frekari verkfallsaðgerðum í kjaradeilu Herjólfs fram á haust.

Ákveðnar kröfur eru gerðar um áhöfn skipa með farþegaleyfi. Hvað Herjólf varðar eru kröfurnar misjafnar eftir farþegafjölda, en séu á bilinu 1-288 farþegar um borð þarf útgerðin að sjá til þess að í áhöfn séu skipstjóri og yfirstýrimaður, annar stýrimaður, yfirvélstjóri, fyrsti vélstjóri, einn bátsmaður, einn matsveinn og tveir undirmenn.

Þá eru misjafnar kröfur gerðar eftir því hvaða stöðu menn gegna í áhöfn en hver og einn sem skráður er í áhöfn þarf að hafa gild réttindi fyrir sinni stöðu. Engin misbrestur hefur orðið á því samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu.

Lögskráningar áhafnarinnar hafa nú verið yfirfarnar, þar á meðal landverkamanna Eimskips sem kallaðir voru til sem staðgenglar þegar útlit var fyrir að ekki yrði siglt vegna manneklu. Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segir að af þeirra hálfu sé allt með eðlilegum hætti.

„Það voru einhverjar undanþágur afgreiddar í morgun, en bara eins og gengur og gerist. Fólk er skráð og afskráð á skip af ýmsum ástæðum og ekki óeðlilegt að einhverjar mannabreytingar séu gerðar á ferju sem siglir á hverjum degi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert