Staðgönguáhöfn Herjólfs í lagi

Herjólfur siglir samkvæmt áætlun í Landeyjahöfn í dag þrátt fyrir …
Herjólfur siglir samkvæmt áætlun í Landeyjahöfn í dag þrátt fyrir tilkynnt veikindi allra undirmanna. mbl.is/Árni Sæberg

Sam­göngu­stofa sér ekki ástæðu til að gera at­huga­semd við manna­breyt­ing­ar sem urðu í áhöfn Herjólfs í morg­un, þar sem land­verka­menn voru fengn­ir til að fylla í skarðið fyr­ir und­ir­menn skips­ins vegna skyndi­legra hóp­veik­inda þeirra allra.

Veik­ind­in voru til­kynnt snemma í morg­un, nokkr­um klukku­stund­um eft­ir að Alþingi samþykkti á miðnætti lög sem fresta frek­ari verk­fallsaðgerðum í kjara­deilu Herjólfs fram á haust.

Ákveðnar kröf­ur eru gerðar um áhöfn skipa með farþega­leyfi. Hvað Herjólf varðar eru kröf­urn­ar mis­jafn­ar eft­ir farþega­fjölda, en séu á bil­inu 1-288 farþegar um borð þarf út­gerðin að sjá til þess að í áhöfn séu skip­stjóri og yf­ir­stýri­maður, ann­ar stýri­maður, yf­ir­vél­stjóri, fyrsti vél­stjóri, einn bátsmaður, einn mat­sveinn og tveir und­ir­menn.

Þá eru mis­jafn­ar kröf­ur gerðar eft­ir því hvaða stöðu menn gegna í áhöfn en hver og einn sem skráður er í áhöfn þarf að hafa gild rétt­indi fyr­ir sinni stöðu. Eng­in mis­brest­ur hef­ur orðið á því sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Sam­göngu­stofu.

Lög­skrán­ing­ar áhafn­ar­inn­ar hafa nú verið yf­ir­farn­ar, þar á meðal land­verka­manna Eim­skips sem kallaðir voru til sem staðgengl­ar þegar út­lit var fyr­ir að ekki yrði siglt vegna mann­eklu. Þór­hild­ur Elín El­ín­ar­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi Sam­göngu­stofu, seg­ir að af þeirra hálfu sé allt með eðli­leg­um hætti.

„Það voru ein­hverj­ar und­anþágur af­greidd­ar í morg­un, en bara eins og geng­ur og ger­ist. Fólk er skráð og af­skráð á skip af ýms­um ástæðum og ekki óeðli­legt að ein­hverj­ar manna­breyt­ing­ar séu gerðar á ferju sem sigl­ir á hverj­um degi.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka