Ræða fríverslun við Malasíu

mbl.is

Fyrsti fundur fríverslunarviðræðna Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), sem Ísland er aðili að ásamt Noregi, Sviss og Liechtenstein, við Malasíu fór fram í síðustu viku í Genf í Sviss.

Fram kemur á vefsíðu EFTA að viðræðurnar á fundinum hafi verið opinskáar og gagnlegar. Farið hafi verið yfir flestar hliðar fyrirhugaðs fríverslunarsamnings. Bæði hafi verið lagðar fram tillögur að texta mögulegs samnings og sömuleiðis skipst á upplýsingum. Þá voru lögð drög að framhaldi viðræðnanna. Didier Chambovey, sendiherra hjá svissneska utanríkisráðuneytinu, fór fyrir fulltrúum EFTA á fundinum en Khoo Boo Seng, skrifstofustjóri hjá ráðuneyti alþjóðaviðskipta, fór fyrir sendinefnd Malasíu.

Viðskipti á milli aðildarríkja EFTA og Malasíu námu samtals 1,8 milljarði dollara árið 2012. Útflutningur til Malasíu nam 996 milljónum dollara og innflutningur frá landinu 867 milljónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert