Karlmaður sem sakaður er um kynferðisbrot í starfi, á sumardvalarheimili fyrir fatlað fólk á suðurlandi, starfar ekki með fötluðum sem stendur. Ekki hefur því komið til þess að víkja þurfi honum frá störfum meðan rannsókn stendur.
Málið er langt komið, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi, og verður líklega sent til ákæruvaldsins eftir helgi.
mbl.is greindi frá því í síðustu viku að starfsmaður sumardvalarstaðar fyrir fatlað fólk var í janúar kærður fyrir kynferðisbrot gegn einum dvalargesta, fatlaðri konu á fertugsaldri. Brotið er sagt hafa átt sér stað síðasta sumar.
Heimilið er lokað á veturna og hefur rannsóknin því ekki áhrif á starfsemina sem stendur. Fari svo að maðurinn verði ákærður þarf hinsvegar að skoða framhaldið, að sögn Sigrúnar Jenseyjar Sigurðardóttur, réttindagæslumanns fatlaðra á Suðurlandi.
Sumardvalarheimilið hefur verið rekið um árabil og aldrei áður komið fram ásakanir um kynferðisbrot þar, samkvæmt heimildum mbl.is. Sigrún Jensey segir þó að reynist ásakanirnar gegn starfsmanninum á rökum reistar þurfi að skoða hvort hugsanlegt sé að hann hafi brotið á fleirum.
Aðspurð hvort maðurinn starfi með fötluðum annars staðar á meðan sumardvalarheimilið er í vetrardvala segir Sigrún Jensey svo ekki vera. Hann sætir ekki gæsluvarðhaldi.
Sjá fyrri frétt mbl.is: Grunaður um brot gegn fatlaðri konu