Þrír Íslendingar og Pólverji, búsettur á Íslandi, voru í dag dæmdir í tveggja og hálfs árs fangelsi í Kaupmannahöfn fyrir viðskipti með tæpt kíló af kókaíni. Einn mannanna var sýknaður af ákæru um e-töflusmygl. 40 þúsund slíkar töflur fundust í íbúð sem maðurinn var í þegar hann var handtekinn. Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins.
Mennirnir voru handteknir í árslok 2012 í tengslum við rannsókn lögreglunnar í Kaupmannahöfn á samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Íslendingarnir þrír voru framseldir til Danmerkur í október á síðasta ári.
Mennirnir voru ákærðir fyrir að reyna smygla um 11,5 kílóum af e-töflum og hálfu kílói af kókaíni til Íslands. Danska lögreglan gerði húsleitir á nokkrum stöðum og lagði hún hald á 40.741 e-töflu, hálft kíló af kókaíni og 26.500 dali í reiðufé.
Fjórmenningarnir hafa setið í gæsluvarðhaldi í tæpt eitt og hálft ár.