Milljarðar munu sparast

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, setti flokksráðsfund í Laugardalshöll í morgun.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, setti flokksráðsfund í Laugardalshöll í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Kjör Íslands á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum hafa batnað mjög og stefnir í að markaðskjörin verði nú hagstæðari en þau sem vinaþjóðir okkar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veittu okkur í kjölfar efnahagskreppunnar haustið 2008. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnhagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðu sinni á flokkráðsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Fundurinn er haldinn í Laugardalshöllinni og hófst í morgun.

„Þetta er mikill viðsnúningur. Milljarðar munu sparast í vaxtakostnað þegar við við förum út á markaðinn og fáum á grundvelli þeirrar stöðu sem við höfum byggt nýja fjármögnun og losnum undan lánum sem fyrir stuttu þóttu fengin á vildarkjörum,“ nefndi Bjarni.

Hann sagði hins vegar að höftin væru enn Þrándur í götu. „Við skulum ávallt hafa í huga að höftin hvíla á okkur öllum, einstaklingum og fyrirtækjum.“

Þau ynnu gegn möguleikum okkar til þess að dreifa áhættu með sómasamlegum hætti og kæmu í veg fyrir að við gætum tekið þátt í alþjóðlegu efnahagslífi á eðlilegum forsendum. „Eitt helsta forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar er því að vinna að afnámi hafta,“ sagði Bjarni.

Viðskiptafrelsi Íslands myndi aukast til muna þegar þau yrðu farin.

Hann sagði að samhliða afnámi fjármagnshafta þyrfti ríkisstjórnin að verja verðstöðugleikann í landinu og létta þrýstingi á krónuna. Við gætum þó „innan skamms“ tekið fyrstu skrefin og afnumið höftin á ýmsar smærri millifærslur, þ.e. á viðskipti sem myndu aldrei hafa teljandi áhrif á verðstöðugleika í landinu.

Bjarni sagði að væntingar kröfuhafa gömlu bankanna um „sérmeðferð,“ einhvers konar forgang að gjaldeyri umfram aðra án tillits til áhrifa fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu, væru og yrðu alltaf draumsýn.

„Ótrúlegt skaðræðisverk“

Bjarni fjallaði enn fremur um atvinnulífið og benti á að eitt helsta kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins hefði verið að koma hjólum þess af stað. Hann rifjaði upp þær 200 skattabreytingar sem fyrri ríkisstjórn réðst í og sagði að það hefði verið „ótrúlegt skaðræðisverk“.

Nú þegar hefði nýrri ríkisstjórn hins vegar tekist að lyfta grettistaki í þessum málum. „Á síðustu tólf mánuðum hafa orðið til fjögur þúsund ný störf,“ sagði Bjarni og bætti því við að atvinnurekendur væru mun bjartsýnni en áður og að væntingavísitala Gallups væri á hraðri uppleið.

Hann sagði að hagvöxtur hér á landi væru meiri en hjá OECD-ríkjunum og að spá Seðlabanka Íslands gerði ráð fyrir meiri hagvexti hér í ár en að meðaltali síðustu þrjátíu árin.

„Atvinnuleysi mældist 4,2% í febrúar. Það er vel viðunandi í alþjóðlegu samhengi en við viljum gera enn betur,“ sagði hann og bætti við: „Atvinnuleysi jókst í fyrra í ellefu Evrópusambandsríkjum og var að meðaltali 10,6%. Það var hins vegar enn meira þegar litið er til evruríkjanna, eða um 12%, 11,9% atvinnuleysi þar í febrúar,“ sagði hann.

„Það sér enginn fyrir endann á þessum ósköpum.“

Hann vakti enn fremur athygli á því að atvinnuleysi á Íslandi hefði verið lægra nú í febrúar en í öllum 28 ríkjum Evrópusambandsins. „Það er hvergi lægra en hér,“ sagði Bjarni.

„Við skulum halda því til haga að þessi veruleiki er í beinum tengslum við þá ákvörðun okkar að halda úti eigin gjaldmiðli.“

Í raun væru aðeins tveir valkostir. Annað hvort að taka út efnahagskreppuna í gegnum atvinnuleysi eða í gegnum gjaldmiðilinn. 

Frétt mbl.is: „Skattar munu lækka frekar“

Flokksráðsfundur Sjálfsstæðisflokksins fer fram í Laugardalshöll í dag.
Flokksráðsfundur Sjálfsstæðisflokksins fer fram í Laugardalshöll í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka