Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir það vera veruleg vonbrigði að sjávarútvegsfyrirtækið Vísir hafi ákveðið að hætta fiskvinnslu á Húsavík, Þingeyri og Djúpavogi og flytja hana til Grindavíkur.
Í umræðum á Alþingi í dag sagði hann að ríkisstjórnin myndi skoða þetta mál vel. Þetta væri auðvitað verulegt áhyggjuefni fyrir byggðalögin. Hann sagðist hafa, sem sjávarútvegsráðherra, átt fundi með sveitarstjórnum Djúpavogs og Húsavíkur og þá mun hann funda með bæjarstjóranum á Ísafirði í vikunni.
Áform Vísis hafa vakið hörð viðbrögð meðal sveitarstjórnarmanna í bæjunum þremur en þeir segja að þetta sé gríðarlegt áfall. „Þetta er hryggjarstykkið í atvinnu á Þingeyri,“ sagði til dæmis Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, í samtali við Morgunblaðið.
Um fimmtíu manns hafa unnið í um 35 heilsársstöðugildum hjá Vísi á Þingeyri, að sögn Daníels.