Frumvarp um líffæragjöf til ríkisstjórnarinnar

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.

Velferðarnefnd Alþingins leggur til að frumvarp um breytingu á lögum um brottnám líffæra, þar sem lagt er til að lögfest verði svokallað ætlað samþykki fyrir líffæragjöfum látinna einstaklinga, verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Nefndin telur ekki tímabært að leggja til þá grundvallarbreytingu að í löggjöf skuli gert ráð fyrir ætluðu samþykki fyrir líffæragjöf. Er það fyrst og fremst vegna þess að reynsla annarra þjóða hefur sýnt að lagabreyting ein og sér hefur ekki tilætluð áhrif og getur vegið að sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga, að því er segir í áliti nefndarinnar.

Nefndin telur jafnframt brýnt að leitað verði leiða til að fjölga líffæragjöfum frá látnum einstaklingum og segir að lagabreyting sem þessi geti verið ein þeirra aðferða sem koma til greina.

Nauðsynlegt sé þó að allar leiðir að markmiðinu verði skoðaðar ítarlega. Leggur nefndin því til að frumvarpið verði afgreitt á þann hátt að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem unnið verði áfram að málinu.

Við meðferð málsins barst nefndinni erindi frá aðstandanda manns sem lést í kjölfar bílslyss fyrr á árinu. Þar er lagt til að 29. janúar á hverju ári verði gerður að degi líffæragjafa til að minna á þá þörfu umræðu sem þarf að eiga sér stað um mikilvægi líffæragjafa.

Nefndin tók undir þessa tillögu og lagði til að eitt af þeim atriðum sem yrðu tekin til skoðunar við frekari vinnslu málsins yrði að helga árlega einn dag líffæragjöfum til að efla og tryggja umræðu um mikilvægi líffæragjafar. Í því sambandi verði litið sérstaklega til 29. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert