Flugsamgöngur á Keflavíkurflugvelli fóru úr skorðum í morgun og þúsundir ferðamanna þurftu að sýna biðlund á meðan flugvallarstarfsmenn lögðu niður störf. Þeir ferðamenn sem mbl.is ræddi við voru margir ósáttir við upplýsingaflæði í tengslum við verkfallið.
Verkfallið bitnar líklega verst á þeim sem missa af tengiflugum sínum og írskir ferðamenn sem mbl.is ræddi við þurfa að greiða um 150 - 200 evrur (23-30 þús.) fyrir breytingu á flugmiðanum sínum. Þar sem fyrirvarinn var lítill eiga þeir ekki von á að fá tjónið bætt úr tryggingum.
Kristján Jóhannsson, formaður Félags flugvallarstarfsmanna, segir að það sé alltaf leiðinlegt að valda fólki tjóni en að aðgerðirnar hafi verið nauðsynlegar og að von sé um að samningaviðræðurnar við Isavia þokist nú í rétta átt.