Fundur verður boðaður á fljótlega hjá Ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu undirmanna á Herjólfi samkvæmt upplýsingum frá embættinu. Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, segir í samtali við mbl.is að beðið sé eftir því að sáttasemjari boði til fundar. Málið sé á forræði hans.
„Menn eru bara að nýta þann frest sem gefinn hefur verið til þess að ná samningum og í raun og veru bara að sjá hvað hægt er að gera,“ segir Ólafur Willam Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, spurður um stöðuna. „Menn hljóta að fara að hittast hvað úr hverju. Allavega til þess að sjá hvað er að gerast.“ Ríkissáttasemjari hafi verið í sambandi við aðila málsins þó ekki hafi verið boðaður formlegur fundur.
Lög voru sett á verkfall þeirra af Alþingi í byrjun þessa mánaðar og í kjölfarið tilkynntu nokkrir undirmenn á Herjólfi veikindi. Voru staðgenglar fengnir í þeirra stað. Tvær vaktir eru á skipinu og eiga undirmennirnir sem tilkynntu veikindi að mæta á vakt á morgun. Ólafur segist aðspurður ekki vita til annars en að sú verði raunin.
„Þeir eiga að koma til vinnu á morgun. Við vitum ekki til annars en að þeir muni mæta. Þeir hafa allavega ekki tilkynnt forföll.“