Sameinast um að bæta húsakost LSH

Spítalinn okkar - landssamtök um endurnýjun á húsakosti Landspítala voru stofnuð nú síðdegis. Samtökunum er ætlað að vinna að nýbyggingu og endurnýjun Landspítala þannig að húsakostur og umhverfi sjúklinga og aðstaða starfsfólks þjóni nútíma þörfum.

Að samtökunum stendur hópur fólks úr ýmsum stéttum. Fram kemur í tilkynningu, að hópnum sé ljóst að vinda þurfi bráðan bug að úrbótum í húsnæðismálum spítalans samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum. Forhönnun nýbygginga spítalans liggi fyrir og mikilvægt sé að halda áfram þeirri vinnu sem er komin vel á veg. 

„Þörfin fyrir nýtt og betra húsnæði eykst mjög á allra næstu árum vegna öldrunar þjóðarinnar og nýrra möguleika á sviði læknavísindanna. Hugmyndir þessa hóps eru að leitað verði allra mögulegra leiða við fjármögnun og framkvæmd verkefnisins,“ segir í tilkynningunni.

Á fundinum var lögð fram stofnskrá og hún samþykkt, tilgangur félagsins skýrður og kosin sjö manna stjórn. Anna Stefánsdóttir er formaður stjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert