Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efni að íslenska ríkinu hefði verið heimilt að leggja á auðlegðarskatt.
Ágreiningsefni málsins snerist um lögmæti auðlegðarskatts sem lagður var á konu eina gjaldárin 2010, 2011 og 2012 og „viðbótarauðlegðarskatt“ sem lagður var á hana gjaldárin 2011 og 2012. Krafðist hún þess að íslenska ríkið greiddi til baka 36 milljónir króna sem hún hefur greitt í auðlegðarskatt.
Þegar dómur Héraðsdóms Reykjavíkur lá fyrir skaut hún málinu til Hæstaréttar 15. nóvember síðastliðinn. Hún krafðist þess aðallega að auðlegðarskattur að fjárhæð 35.911.443 krónur, sem henni var gert að greiða samkvæmt álagningu á árunum 2010, 2011 og 2012, yrði felldur niður og að íslenskra ríkinu yrði gert að greiða sér áðurgreinda fjárhæð með vöxtum.
Konan hélt því fram að álagning skattsins með þeim hætti sem gert hafði verið væri í andstöðu við 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar og samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu.
Í niðurstöðu Hæstaréttar kom meðal annars fram að um hefði verið að ræða fullgildan skattstofn. Með ákvæðum 1. mgr. 65. gr. og 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu og 14. gr. sáttmálans væru valdi löggjafans til skattlagningar takmörk sett.
„Væru þau grundvallarsjónarmið sem í ákvæðunum fælust virt hefðu dómstólar játað löggjafanum verulegu svigrúmi til að ákveða hvernig skattlagningu skyldi háttað. Hefðu eignir manna hér á landi verið skattlagðar um aldir og hefði löggjafinn svigrúm til að haga þeirri skattlagningu þannig að maður greiddi engan skatt ef verðmæti eigna hans næðu ekki tiltekinni fjárhæð og jafnframt að skatturinn færi stighækkandi eftir því sem verðmætið væri meira,“ að því er segir í dómi Hæstaréttar.
Mætti þó ekki ganga svo langt í skattheimtu gagnvart einstökum mönnum að þeim væri mismunað á ótilhlýðilegan hátt í samanburði við aðra. Er auðlegðarskattur hefði verið fyrst lögleiddur hefði verið við að etja einstæðan vanda í ríkisfjármálum og hefði verið brýn þörf á að afla ríkissjóði viðbótartekna.
Áfrýjanda var gert að greiða stefnda, íslenska ríkinu, eina milljón króna í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Frétt mbl.is: Heimilt að leggja á auðlegðarskatt