Bæjarráð Akureyrarbæjar telur að þrátt fyrir úrskurð innanríkisráðuneytisins um að ólögmætt hafi verið að víkja Snorra Óskarssyni úr starfi kennara við Brekkuskóla á Akureyri vegna bloggskrifa hans um samkynhneigða hafi það verið rétt ákvörðun. Snorra var vikið úr starfi sínu árið 2012 en greint var frá úrskurði ráðuneytisins í gær.
„Þrátt fyrir niðurstöðu innanríkisráðuneytisins telur bæjarráð að rétt hafi verið að víkja Snorra Óskarssyni frá störfum þar sem fordómafull skrif hans um samkynhneigða samrýmast ekki stöðu hans sem kennara barna í skyldunámi. Bæjarráð felur bæjarlögmanni að kanna næstu skref,“ segir í bókun bæjarráðs.
Þá segir að Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður og Gunnar Gíslason fræðslustjóri hafi mætt á fund bæjarráðs vegna málsins.