Reif 10.000-kalla í sundur á Alþingi

Skjáskot af Althingi.is

„Þeir sem læra ekki af sög­unni eru dæmd­ir til að end­ur­taka hana,“ sagði Jón Þór Ólafs­son, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag í umræðum um fund­ar­stjórn for­seta. Vísaði hann þar til rann­sókn­ar­skýrslu um fall spari­sjóðanna sem rædd er á Alþingi í dag. Sagði hann slík­ar skýrsl­ur mik­il­væg­ar til þess að varpa ljósi á af­glöp yf­ir­valda.

Því næst beindi hann sjón­um að kostnaðinum vegna rann­sókn­ar­skýrsl­unn­ar sem var um 600 millj­ón­ir króna. Gagn­rýndi hann hversu skamm­an tíma þing­menn fengu til þess að kynna sér efni henn­ar áður en hún væri tek­in til umræðu á Alþingi en skýrsl­an var gerð op­in­ber í gær. Til stæði að ræða skýrsl­una í fimm klukku­tíma í dag sem þýddi miðað við kostnaðinn af henni að hver sek­únda kostaði 30 þúsund krón­ur.

Því næst tók hann upp þrjá tíuþúsund­kalla og sagðist ætla að reyna að rífa þá einn í einu á einni sek­úndu. Á meðan sló Ein­ar K. Guðfinns­son, for­seti Alþing­is, í bjöll­una ít­rekað þar sem ræðutíma þing­manns­ins var lokið. „Sjá­um hvernig mér tekst að rífa 30 þúsund krón­ur á einni sek­úndu. Einn seðil hver eft­ir ann­an. Eig­um við að prófa?“ Það tókst hins veg­ar ekki.

„En þegar við ræðum skýrsl­una í dag í alla þessa fimm tíma skuluð þið horfa til þess að verið er að rífa þrjá á sek­úndu, sem end­ur­spegl­ar kostnaðinn við þessa skýrslu og við eig­um að geta tekið upp­lýsta ákvörðun og haft eft­ir­lit með fram­kvæmd­ar­vald­inu með þessu móti,“ sagði hann enn­frem­ur.

Öll tæki­færi til þess að bregðast við

Ill­ugi Gunn­ars­son mennta­málaráðherra tók til máls við upp­haf umræðu um rann­sókn­ar­skýrsl­una og gerði grein fyr­ir henni sem staðgeng­ill Bjarna Bene­dikts­son­ar fjár­málaráðherra og sagði að ein­ung­is væri um að ræða umræðu um málið í dag. Alþingi hefði öll tæki­færi til þess að bregðast við skýrsl­unni síðar með laga­setn­ingu, þings­álykt­un­um og fleiru. Hann væri því ekki sam­mála því að verið væri að fara illa með fjár­muni al­menn­ings.

„Ég treysti því að þeir pen­inga­seðlar sem hér voru rifn­ir hafi verið í einka­eign þing­manns­ins,“ sagði Ill­ugi enn­frem­ur. Hon­um væri vit­an­lega frjálst að fara með eig­in fjár­muni eins og hon­um þóknaðist.

Fleiri þing­menn hafa tekið und­ir gagn­rýni á að þing­menn fengju skamm­an tíma til þess að kynna sér rann­sókn­ar­skýrsl­una. Þar á meðal Guðmund­ur Stein­gríms­son, formaður Bjartr­ar framtíðar, sem sagðist telja að líða ættu þrjár næt­ur frá birt­ingu slíkra skýrslna þar til þær væru rædd­ar á Alþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert